23. mars 2012

Frumvarp til laga um skráð trúfélög (lífsskoðunarfélög, aðild barna o.fl.), 509. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um skráð trúfélög (lífsskoðunarfélög, aðild barna o.fl.), 509. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 23. mars 2012.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um skráð trúfélög (lífsskoðunarfélög, aðild barna o.fl.), 509. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 23. mars 2012.

Skoða frumvarp til laga um skráð trúfélög (lífsskoðunarfélög, aðild barna o.fl.), 509. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna


Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 23. mars 2012
UB: 1203/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um skráð trúfélög (lífsskoðunarfélög, aðild barna o.fl.), 509. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 7. mars, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Umboðsmaður barna gerir litlar athugasemdir við frumvarpi en vill þó koma eftirfarandi á framfæri.

Umboðsmanni barna hafa borist erindi þar sem börn leita svara varðandi trúfrelsi sitt. Dæmi um erindi af þessu tagi er að börn vilja fermast í kirkju en foreldrar eru því mótfallnir eða börn langar ekki að fermast í kirkju heldur borgaralega, þvert á óskir foreldra. Einnig geta komið upp dæmi þar sem börn vilja alls ekki fermast. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um skráð trúfélög nr. 108/1999 geta þeir sem eru orðnir 16 ára tekið ákvörðun um inngöngu í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi. Í ljósi þess að flest börn fermast á 14. aldursári veltir umboðsmaður barna upp þeirri spurningu hvort ekki væri eðlilegra að börn gætu tekið ákvörðun um inngöngu í eða úrsögn úr trúfélagi þá. Ákvörðun um það hvort eða hvar þau fermast verður því þeirra.

Í 3. mgr. 8. gr. laga um skráð trúfélög nr. 108/1999 segir að ef barn hefur náð 12 ára aldri skal sá sem tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi leita eftir áliti þess. Á síðastliðnum árum hefur börnum verið veittur ríkari réttur til þess að láta skoðanir sínar í ljós og að tekið sé tillit til þess sem þau hafa fram að færa eftir því sem aldur og þroski leyfa. Enn eru þó ákvæði sem uppfylla ekki skilyrði 12. gr. Barnasáttmálans á þann hátt að börnum er aðeins veittur réttur til að láta skoðanir sínar í ljós þegar þau hafa náð tilteknum aldri. Fyrrnefnt ákvæði er dæmi um slíkt. Í 12. gr. Barnasáttmálans segir að aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að orðalagi ákvæðisins verði breytt á þá leið að sá sem tekur ákvörðun um inngöngu barns í eða úrsögn þess úr skráðu trúfélagi skuli leita eftir áliti barns eftir því sem aldur og þroski gefa tilefni til.

Virðingarfyllst,


___________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica