23. maí 2008

Frumvarp til laga um sjúkratryggingar, 613. mál, heildarlög.

Heilbrigðisnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um sjúkratryggingar, 613. mál, heildarlög.  Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 23. maí 2008.    

Skoða frumvarp til laga um sjúkratryggingar, 613. mál, heildarlög.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík

Reykjavík, 23. maí 2008
Tilvísun: UB 0805/4.1.1


Efni: Frumvarp til laga um sjúkratryggingar, 613. mál, heildarlög.

Vísað er til bréfs heilbrigðisnefnar Alþingis, dagsett 16. maí 2008,  þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Undirrituð hefur sökum anna ekki haft tök á að fara yfir frumvarpið í heild sinni, en vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:
 
Í 1. mgr. 32. gr. frumvarpsins er gerð sú breyting frá núgildandi lögum að réttur til sjúkradagpeninga er bundinn við að umsækjandi hafi náð 18 ára aldri í stað 16 ára. Einstaklingar verða ekki lögráða fyrr en við 18 ára aldur samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 og framfærsluskylda foreldra samkvæmt barnalögum nr. 76/2003, helst fram að þeim tíma. Þrátt fyrir ofangreint er nauðsynlegt að haft sé í huga að skólaskylda samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 66/1995 nær aðeins til 16 ára aldurs. Umboðsmaður barna leggur mikla áherslu á menntun barna og telur mikilvægt að öll börn eigi kost á framhaldsmenntun og geti nýtt sér hana sbr. 28. og 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18/1992. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands var skólasókn í framhaldsskólum 93% hjá 16 ára ungmönnum og 85% hjá 17 ára ungmönnum haustið 2006.  Má af þessu draga þá ályktun að umtalsverður fjöldi ungmenna á aldrinum 16 til 18 ára sé á vinnumarkaði, auk þess sem vitað er að fjölmargir framhaldsskólanemar stunda vinnu samhliða námi, sumir sér til framfærslu. Nái þessi breyting sem boðuð er í frumvarpinu fram að ganga eiga ungmenni á aldrinum 6-16 ára því ekki rétt á  sjúkradagpeningum og geta því orðið bótalaus verði þau óvinnufær. Auk þess verður ekki framhjá því litið að þessir sömu einstaklingar verða sjálfstæðir skattaaðilar samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt ofangreindu má vera ljóst að breytingin hefur það í för með sér að staða ungmenna á aldrinum 6-16 ára á vinnumarkaði verður lakari en fullorðinna og telur umboðsmaður að það ekki eðlilegt. 

Í 20. gr. frumvarpsins er fjallað um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra tannlækninga, annarra en tannréttinga, barna yngri en 18 ára, með sambærilegum hætti og í núgildandi lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar. Þá er að finna sambærilegt skilyrði um að greiðsluþátttaka eigi aðeins við ef að í gildi sé samningur milli þess tannlæknis sem veitir þjónustuna og sjúkratryggingastofnunar. Kveðið er á um rétt barna til að njóta besta mögulega heilsufars og aðgengi að heilbrigðisþjónustu  í 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18/1992. Þar segir jafnframt að aðildarríkin skuli tryggja þennan rétt og sjá til þess að ekkert barn fari á mis við hann. Undir þessa grein fellur tannlæknaþjónusta. Umboðsmanni barna hafa borist mörg erindi í tengslum við bæði tannlæknaþjónustu og kostnað. Tíðni tannskemmda barna fer vaxandi hér á landi samkvæmt niðurstöðum MUNNÍS – landsrannsóknar á munnheilsu barna á Íslandi. Þar kemur fram að um 17% barna og ungmenna mæta ekki í reglubundið eftirlit hjá tannlækni. Má það m.a. rekja til þess hversu dýrt það hefur verið að sækja slíka þjónustu og að gjaldskrá margra tannlækna sé mun hærri en sú gjaldskrá ráðherra sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir samkvæmt.

 Að gefnu tilefni vil ég einnig benda á nauðsyn þess að þeir samningar milli ríkisins og sérfræðinga á heilbrigðissviði sem fjallað er um í frumvarpinu séu í gildi og að endurgreiðsla sé í samræmi við raunkostnað þjónustunnar. Ábendingar er varða ofangreint hafa borist umboðsmanni m.a. í tengslum við þjónustu talmeinafræðinga sbr. 21. gr. frumvarpsins. Flestir talmeinafræðingar í dag starfa án samnings við ríkið og hafa endurgreiðslur frá því í desember sl. verið greiddar í formi styrks. Sá styrku er ekki í samræmi við raunkostnað þjónustunnar. Ekki þarf að undirstrika mikilvægi þess að börnum sé tryggð bæði fljót og góð þjónusta og að öll börn geti nýtt sér hana óháð efnahag foreldra sinna. Hér með er vakin athygli yðar á þessu sívaxandi vandamáli.

Virðingarfyllst,

________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica