25. október 2012

Frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 155. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 155. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður með bréfi dags. 25. október 2012.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 155. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður með bréfi dags. 25. október 2012.

Skoða frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 155. mál
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 25. október 2012

Efni: Frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 155. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 19. október 2012, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna telur að lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálans eins og hann er oftast kallaður, muni styrka stöðu barna á Íslandi. Hann hefur því margoft bent á mikilvægi þess að lögfesta sáttmálann, meðal annars í skýrslu sinni til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2010, sem hægt er að nálgast hér á heimasíðu embættisins.

Þó að Barnasáttmálinn hafi verið fullgiltur hér á landi árið 1992 og íslenska ríkið sé skuldbundið að þjóðarétti til að uppfylla ákvæði sáttmálans er sjaldan vitnað í ákvæði hans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum. Þá eru dæmi um að dómar hafi beinlínis verið í andstöðu við ákvæði Barnasáttmálans. Er lögfesting Barnasáttmálans því mikilvæg til að tryggja að honum verði í auknum mæli beitt í framkvæmd og réttindum barna þannig gefið aukið vægi.

Umboðsmaður barna telur ennfremur að lögfesting Barnasáttmálans muni fela í sér kynningu á sáttmálanum og verða til þess að börn og fullorðnir þekki betur þau réttindi sem hann hefur að geyma. Er þetta ekki síst mikilvægt í ljósi þess að nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur gert athugasemdir við fræðslu og kynningu á sáttmálanum hér á landi. Góð þekking á Barnasáttmálanum eykur líkurnar á því að réttindi barna séu virt og að brugðist sé fyrr við þegar brotið er á þeim.

Í ljósi þess sem að framan greinir lýsir umboðsmaður barna yfir sérstakri ánægju með ofangreint frumvarp og vonar að það verði að lögum. Umboðsmaður telur þó ástæðu til að endurskoða orðalag 4. gr. frumvarpsins um breytingu á lögum um fullnustu refsinga nr. 49/2005. Breytingartillagan gerir ráð fyrir að vista skuli fanga undir 18 ára aldri á heimilum á vegum barnaverndaryfirvalda, nema „sérstakar ástæður“ séu til að vista þá í fangelsi. Umboðsmaður barna hefur margoft bent á að ekki beri að vista unga fanga með fullorðnum föngum, sbr. meðal annars fyrrnefnda skýrslu til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Telur umboðsmaður því mikilvægt að orðalag fyrrnefnds ákvæðis taki mið af b-lið 37. gr. Barnasáttmálans og kveði á um að vista skuli fanga undir 18 ára aldri á heimilum á vegum barnaverndaryfirvalda, nema annað sé talið þeim fyrir bestu.  

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica