10. janúar 2008

Frumvarp til laga um meðferð sakamála, heildarlög, 233 mál.

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um meðferð sakamála, 233 mál, heildarlög.  Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 10. janúar 2008.    

Skoða frumvarp til laga um meðferð sakamála, 233 mál, heildarlög.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 10. janúar 2008

Efni: Frumvarp til laga um meðferð sakamála, 233 mál, heildarlög.

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 26. nóvember 2007,  þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Umboðsmaður barna hefur ekki sökum anna ekki haft tök á að fara yfir frumvarpið í heild sinni, en vill koma eftirfarandi á framfæri:
 
Hjá íslenskum dómstólum er fyrirkomulag skýrslutöku af börnum yngri en 15 ára mismunandi eftir dómstólum landsins. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að öllum börnum sem gefa skýrslu eða eru vitni fyrir dómi sé tryggð besta meðferð fyrir dómi sem völ er á. Þá er mikilvægt að tryggja samræmi milli einstakra dómstóla. Einnig vill umboðsmaður barna benda á að nú er Barnahús undir Barnaverndarstofu sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið. Umboðsmaður barna telur eðlilegra að stofnun sem kemur að skýrslutöku af börnum fyrir dómi heyri undir dómsmálaráðuneytið og sé þannig hluti af réttarvörslukerfinu.

Í 10. gr. er fjallað um hvenær mál skulu haldin fyrir luktum dyrum og eru ástæður sem réttlætt geta slíkt tæmandi taldar í greininni. Má þar nefna ef hagsmunir málsaðila krefjast þess vegna eðli málsins og þannig hafa mál er varða kynferðisbrot gegn börnum  að jafnaði verið háð fyrir luktum dyrum. Umboðsmaður barna hefur ítrekað fengið ábendingar frá aðstandendum barna sem eru ósáttir við að vitnisburður barnanna sé birtur í heild sinni í dómunum, sem nú eru aðgengilegur öllum á netinu. Sérstaklega hafa borist athugasemdir þegar um er að ræða kynferðisbrot gegn börnum þar sem tiltölulega auðvelt hefur verið að þekkja barnið sem hlut á að máli. Þetta er sérstaklega viðkvæmt þegar um smærri samfélög er að ræða. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að þetta verði skoðað með hliðsjón af hagsmunum barnanna. Umboðsmaður barna telur rétt að vitnisburður  barns fyrir dómi í ofangreindum málum verði ekki birtur í heild sinni á netinu, þar sem birting getur valdið brotaþolunum enn frekari sálarangist og vanlíðan.

Einnig vill undirrituð benda á að í lögunum er ekki skilgreint hver er kunnáttumaður skv. 123. gr. frumvarpsins. Þeir aðilar sem taka skýrslu af barni fyrir dómi þurfa að vera sérfræðingar í skýrslutöku til að tryggja barninu bestu meðferð sem völ er á fyrir dómstólnum.

Þá vill umboðsmaður barna benda á að mál sem varða kynferðisbrot gegn börnum tefjast oft á tíðum of mikið. Taka þarf skýrslu af þeim eins fljótt og auðið er til að tryggja að börnin fái meðferð sem fyrst vegna þessa áfalls sem þau hafa orðið fyrir. Í framkvæmd hefur verið brotalöm á þessu.  

 Loks vill umboðsmaður barna nota tækifærið og benda á  að skv. lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota er hámark miskabóta sem ríkið ábyrgist 600.000 kr. Dæmdar bætur í slíkum málum eru þó oft mun hærri. Í framkvæmd reynist oft erfitt að fá greitt það sem umfram er. Hærri bætur en 600.000.- eru því oft orðin tóm ef barnið og aðstandendur þess þurfa sjálf að sækja fjármunina til geranda. Þetta fyrirkomulag er til þess fallið að veikja tiltrú barna sem eru fórnarlömb alvarlegra glæpa á réttarkerfinu. Umboðsmaður barna telur afar mikilvægt að börn fái greiddar dæmdar bætur að fullu í málum sem þessum og að ríkissjóður ábyrgist þær greiðslur. Um óverulegar fjárhæðir fyrir ríkissjóð er að ræða en mikið réttlætismál fyrir börnin. 

Virðingarfyllst

__________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica