5. mars 2015

Frumvarp til laga um mannanöfn (mannanafnanefnd, ættarnöfn), 389. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um  frumvarp til laga um mannanöfn (mannanafnanefnd, ættarnöfn), 389. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna í tölvupósti dags. 5. mars 2015.

Skoða frumvarp til laga um mannanöfn (mannanafnanefnd, ættarnöfn), 389. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Allsherjar- og menntamálanefnd

Reykjavík, 5. mars 2015
UB:1503/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um mannanöfn (mannanafnanefnd, ættarnöfn), 389. mál

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 19. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna tekur undir mikilvægi þess að auka svigrúm þegar kemur að nafnavali barna. Sérstaklega telur hann tímabært að auka svigrúm foreldra og eftir atvikum barna til þess að velja nöfn, óháð kyni. Sú breyting myndi vera verulega til hagsbóta fyrir börn sem eru trans eða falla að öðru leyti ekki að stöðluðum hugmyndum samfélagsins um kyn og kyngervi. Mikilvægt er að þessi börn fái aukið svigrúm til þess að breyta nafni sínu og velja sér nafn sem er betur í samræmi við þeirra eigin kynvitund.

Þó að aukið svigrúm í nafnavali geti vissulega haft jákvæð áhrif á stöðu barna hér á landi er ekki hægt að líta framhjá því að nöfn geta í einhverjum tilvikum verið meiðandi fyrir börn eða verið þeim að öðru leyti til verulegs ama. Sem betur fer eru flestir foreldrar færir um að gæta hagsmuna barna sinna. Hins vegar er ávallt hætta á að einhver lítill hluti foreldra muni velja nafn sem getur talist verulega skaðlegt fyrir barn og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan þess. Telur umboðsmaður barna því ástæðu til að kveða áfram á um einhvers konar eftirlit með nafngiftum barna, hvort sem það sé á vegum mannanafnanefndar eða annars opinbers aðila, svo sem barnaverndar. 

Eins og fram kemur í greinargerð með ofangreindu frumvarpi er nafn mikilvægur hluti af sjálfsmynd barna. Þarf því að gæta þess að ekki séu teknar ákvarðanir um breytingar á nöfnum barna, án þess að samráð sé haft við þau sjálf. Samkvæmt lögum um mannanöfn nr. 45/1996 þurfa börn sjálf að samþykkja nafnbreytingar frá 12 ára aldri, sbr. 4. mgr. 13. gr. og 8. mgr. 14. gr. laganna. Í framkvæmd er þó ekki tryggt að börn undir 12 ára aldri hafi tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Telur umboðsmaður barna því ástæðu til þess að breyta framangreindum ákvæðum og árétta að ávallt skuli gefa börnum, sem myndað geta eigin skoðanir, tækifæri til þess að tjá sig áður en teknar eru ákvarðanir um nafnbreytingar og að skylt sé að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska, eins og skylt er samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013  og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Kenninöfn barna skipta ekki síður máli fyrir sjálfsmynd þeirra en eiginnöfn, enda vísa þau oftast til tengsla barns við föður og/eða móður. Slíkt getur haft jákvæð áhrif, sérstaklega þegar barn er eða var í góðum tengslum við það foreldri sem það er kennt við. Umboðsmaður barna þekkir hins vegar einnig dæmi þar sem kenninöfn hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd barna og jafnvel þannig að nafn beinlínis veldur barninu vanlíðan. Getur það til dæmis átt við í þeim tilvikum sem umrætt foreldri hefur haft lítil, engin eða neikvæð samskipti við barnið og það vill mun fremur kenna sig við það foreldri sem hefur verið til staðar fyrir það. Þá geta komið upp aðstæður þar sem foreldri hefur brotið gegn barni með alvarlegum hætti og það er stöðug og íþyngjandi áminning fyrir barnið að bera nafn brotmannsins. Samkvæmt 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn getur Þjóðskrá Íslands samþykkt breytingu á kenninafni barns þó sá sem barn er kennt við sé andvígur því ef sérstaklega stendur á og telja verður að nafnbreyting verði barni til verulegs hagræðis. Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um að umrætt ákvæði sé túlkað mjög þröngt í framkvæmd og að dæmi séu um að beiðni um nafnbreytingu stálpaðs barns hafi verið hafnað jafnvel þó það hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu þess foreldris sem það er kennt við. Í september sl. sendi umboðsmaður bréf til Þjóðskrár og spurðist fyrir um þessa túlkun. Í svari sínu bendir Þjóðskrá á orðalag ákvæðisins sé þröngt og að það sé „ekki hlutverk stofnunarinnar að leggja mat á eða taka afstöðu til þess hvort barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu foreldris eða annars aðila þegar ekki liggur fyrir dómur eða annarskonar sönnun um sekt foreldris um kynferðisofbeldi gagnvart barni“. Í kjölfarið sendi umboðsmaður Þjóðskrá annað bréf þar sem hann hvetur stofnunina til þess að setja hagsmuni barna í forgang og forðast að gera of ríkar sönnunarkröfur þegar metið er hvort breyting á kenninafni teljist barni til verulegs hagræðis. Vissulega er mikilvægt að tryggja að nöfn barna verði ekki vettvangur fyrir deilur foreldra og þarf því að gera ákveðnar kröfur til þess að hægt sé að breyta kenninafni barns. Á sama tíma er þó brýnt að tekið sé tillit til þess hversu mikil áhrif kenninafn getur haft á sjálfsmynd barna og réttur þeirra til þess að hafa stigvaxandi áhrif á eigið líf virtur. Má í því sambandi minna á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga á það sem er barni fyrir bestu að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Eiga hagsmunir þess  barns sem óskar eftir breytingu á kenninafni því að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir þess foreldris sem barn er kennt við. Í ljósi þess hvernig 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn hefur verið túlkað í framkvæmd telur umboðsmaður barna brýnt að breyta orðalagi ákvæðisins, þannig að aukið tillit verði tekið til hagsmuna barna og vilja þeirra, í samræmi við aldur og þroska. 

Hér má nálgast tvö bréf sem umboðsmaður barna sendi Þjóðskrá á síðasta ári sem og eitt svarbréf frá Þjóðskrá: /frettir/2014/12/nafnbreytingar-og-hagsmunir-barna/

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica