21. nóvember 2007

Frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, mál nr. 12.

Menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, mál  nr. 12. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 21. nóvember 2007.

Skoða frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, mál  nr. 12.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík

Reykjavík, 21. nóvember 2007
Tilvísun: UB 0711/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, mál  nr. 12.

Vísað er til bréfs menntamálanefndar Alþingis, dagsett 6. nóvember 2007, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Undirrituð hefur skoðað frumvarpið út frá hagsmunum barna og telur það styrkja til muna réttarstöðu heyrnarlausra, heyrnarskertra og dauflindra barna í reynd frá því sem verið hefur. 

Í  23 .gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins segir m.a. að  líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu. Aðildarríki ber að tryggja að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum.

Í 12. gr. samningsins segir að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða. Til þess að heyrnarlaus, heyrnarskert og dauflind börn geti notið þessa réttar til fullnustu er mikilvægt að þau geti tjáð sig á  sínu eigin máli.  

Þá segir í 2. gr. samningsins að aðildarríki skuli virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.

Þrátt fyrir að samningurinn sé ekki lögfestur hér á landi er íslenska ríkið engu að síður bundið af honum á grundvelli þjóðaréttar og ber því að tryggja allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi sem viðurkennd eru í samningnum komi til framkvæmda, sbr. 4.gr.

Skv. ofangreindu ber aðildarríkjum því að tryggja heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum börnum sömu tækifæri og öðrum börnum og stuðla þannig að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu. Það að viðurkenna íslenska táknmálið sem þeirra fyrsta mál mun án efa treysta stöðu þeirra í samfélaginu, efla sjálfstæði þeirra í daglegu lífi og  tryggja þeim aðgang að menntun, upplýsingum og menningu. 

Undirrituð styður því framkomið frumvarp og væntir þess að það verði samþykkt á hinu háa Alþingi.

Virðingarfyllst,
        
 _______________________________________
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica