29. nóvember 2011

Frumvarp til laga um grunnskóla (tímabundna skerðingu kennslutíma), 156. mál

Allsherjar- og menntamálnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um grunnskóla (tímabundna skerðingu kennslutíma), 156. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með bréfi dags. 29. nóvember 2011.

Allsherjar- og menntamálnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um grunnskóla (tímabundna skerðingu kennslutíma), 156. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með bréfi dags. 29. nóvember 2011.

Skoða frumvarp til laga um grunnskóla (tímabundna skerðingu kennslutíma), 156. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna


Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 29. nóvember 2011
UB: 1111/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um grunnskóla (tímabundna skerðingu kennslutíma), 156. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 11. nóvember sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Umboðsmaður þakkar fyrir að fá að koma með athugasemdir.

Niðurskurður vegna þess efnahagsástands sem við búum við í dag bitnar á öllum þjóðfélagshópum, ekki síst þeim sem standa að einhverju leyti höllum fæti. Umboðsmaður barna vill koma því á framfæri að börn og ungmenni eru mjög viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar og umönnunar umfram aðra þjóðfélagsþegna, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í þeim efnahagsþrengingum sem nú eru er mikilvægt að halda vel utan um börn og sjá til þess að þau njóti þeirrar þjónustu sem velferð þeirra krefst og nauðsynleg er til að þau nái líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska, sbr. 27. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Börn eiga einungis eina æsku og einn möguleika til að ná eðlilegum þroska og ef börn fá ekki þann möguleika þá bera þau þann skaða með sér það sem eftir er. Einnig þarf að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að þrengingar í efnahagslífinu hafi áhrif á þeirra daglega líf, svo sem skólagöngu.

Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir börn og er ákveðin kjölfesta í lífi barna og ungmenna. Kjölfesta sem ekki síst er mikilvæg fyrir börn á þeim umrótartímum sem við lifum núna. Auk þess hefur reynsla nágrannaþjóða okkar sýnt að niðurskurður í skólakerfinu hefur neikvæðar afleiðingar í för með sér þegar til lengri tíma er litið. Má sem dæmi nefna að þegar gripið var til sparnaðaraðgerða varðandi börn í Svíþjóð upp úr árunum 1990 var ekki litið nægilega til framtíðaráhrifa þess og er talið að sá niðurskurður hafi í sumum tilfellum leitt til aukins kostnaðar þegar upp var staðið. Einnig eru langtímaáhrif niðurskurðar á krepputímum í Finnlandi vel þekkt.

Breytingar á sviðið grunnskóla skipta miklu máli fyrir daglegt líf barna á Íslandi. Þessar stofnanir eru í einstakri stöðu til að jafna það félagslega misrétti sem er raunveruleiki í lífi margra barna á Íslandi. Er því sérstaklega mikilvægt að ákvarðanir um slíkar breytingar séu vel grundaðar með hliðsjón af hagsmunum barna eins og fullgilding Íslands á Barnasáttmálanum felur í sér. Sáttmálinn gerir ráð fyrir því að áhrif fyrirhugaðra breytinga séu metin heildrænt m.t.t. reynslu og raunprófaða þekkingu frá öðrum samfélögum. Í slíku mati er mikilvægt að kanna hvaða áhrif breytingarnar muni hafa á líf barna þegar til lengri tíma er litið. Þá er nauðsynlegt að taka tillit til sjónarmiða allra þeirra sem hafa hagsmuna að gæta, sérstaklega barna. Umboðsmaður barna leggur því áherslu á að ákvarðanir séu teknar í samráði við nemendur, foreldra, starfsmenn og annað fagfólk. Þegar ákvarðanir eru teknar án þess að tekið sé nægjanlegt tillit til sjónarmiða hagsmunaaðila er líklegt að það valdi óánægju innan skólasamfélagsins og hafi neikvæð áhrif á skólabrag. Óöryggi og vanlíðan nemenda og aukið álag á starfsfólk eykur líkurnar á því að erfitt reynist að bregðast við þeim vandamálum sem fylgja breytingunum.

Gæta þarf sérstakrar varkárni þegar tekin er ákvörðun um að skerða réttindi sem þegar er búið að veita. Það er aldrei heimilt að skerða lögbundna þjónustu við börn og jafnvel í þeim tilvikum þar sem þjónusta við börn er ekki lögbundin þarf að gæta sérstakrar varfærni áður en hún er skert með einhverjum hætti. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur bent á að efnahagsstaða ríkis ein og sér dugi ekki til að réttlæta skerðingu á slíkum réttindum. Má í því sambandi nefna að í 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Þar af leiðandi skal ætíð leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert. Ljóst er að niðurskurður undanfarinna ára hefur nú þegar bitnað umtalsvert á börnum. Meirihluti barna býr við góð skilyrði en umboðsmaður hefur sérstakar áhyggjur af þeim börnum sem voru í viðkvæmri stöðu fyrir hrun. Margar vísbendingar eru um að þessi hópur barna sé mun verr settur nú en áður. Hætt er við að frekari niðurskurður hafi í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir velferð barna og aukinn kostnað fyrir sveitarfélög þegar til lengri tíma er litið, eins og reynsla nágrannaþjóða okkar hefur meðal annars sýnt.

Umboðsmaður barna gerir sér grein fyrir þeim vanda sem sveitarfélögin standa nú frammi fyrir og er því eðlilegt að starfsemi sé endurskipulögð að einhverju leyti og hagrætt eins og hægt er. Hins vegar leggur umboðsmaður barna áherslu á þá skyldu sveitarfélaga að hafa ávallt það sem börnum er fyrir bestu að leiðarljósi við ákvarðanir sínar og taka tillit til sjónarmiða barna við allar ákvarðanir sem varða þau, sbr. 3. og 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Auk þess þykir umboðsmanni barna óeðlilegt að vikulegur kennslutími sé skertur í tvö skólaár á meðan þeir sem hafa lokið grunnskóla fengu fulla kennslu. Þá er líklegt að sum sveitarfélög ákveði að nýta sér umrædda heimild ekki á meðan önnur nýta hana að fullu. Þannig eru líkur á að börnum verði mismunað eftir búsetu í enn frekari mæli en nú tíðkast.

Tilgangur frumvarpsins er að draga úr kostnaði sveitarfélaga við rekstur grunnskóla. Með frumvarpinu eru hagsmunir barna því ekki settir í forgang heldur eru fjárhagslegir hagsmunir sveitarfélaga útgangspunkturinn. Þar af leiðandi mótmælir umboðsmaður barna harðlega að ofangreint frumvarp verði samþykkt. Umboðsmaður barna telur frumvarpið andstætt grundvallarforsendum Barnasáttmálans enda er í því vegið að rétti barna til menntunar.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica