24. janúar 2008

Frumvarp til laga um grunnskóla, heildarlög, 285. mál

Menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um grunnskóla, heildarlög, 285. mál.  Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 24. janúar 2008.    

Skoða frumvarp til laga um grunnskóla, heildarlög, 285. mál
Skoða feril málsins

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 24. janúar 2008
Tilvísun: UB 0801/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til laga um grunnskóla, heildarlög, 285. mál

Vísað er til bréfs menntamálanefndar Alþingis, dagsett þann 14. desember 2007, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna  um ofangreint frumvarp.

Undirrituð lýsir yfir ánægju sinni með framkomið frumvarp og telur það endurspegla vel þær breytingar og þróun sem orðið hafa í íslensku samfélagi og þar með íslensku skólakerfi á undanförnum áratugum. Það var löngu orðið tímabært að ráðast í heildarendurskoðun grunnskólalaganna og við yfirlestur er ljóst að vandað hefur verið til verks og reynt að koma til móts við viðhorf og sjónarmið fjölmargra og ólíkra hagsmunaaðila. Umboðsmaður barna skoðar grunnskólalögin fyrst og fremst út frá rétti og hagsmunum nemenda og hefur lagt á það áherslu að lögin tryggi gæði menntunar, jafnræði nemenda, vellíðan þeirra og réttaröryggi.

Fyrrum umboðsmanni barna gafst kostur á að koma athugasemdum og ábendingum til þeirrar nefndar sem vann frumvarpið og ánægjulegt að sjá að tekið hefur verið tillit til fjölmargra þeirra.

Í frumvarpinu eru hlutverk, ábyrgð, réttindi og skyldur skólans, nemenda og foreldra betur skilgreind og skýrð, skilin milli ríkis og sveitarfélaga betur afmörkuð og útfærð og reglur um málsmeðferð eru mun skýrari. Þá er bundið í lög að grunnskólinn sé fyrir öll börn án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis og réttur barna með sérþarfir til margs konar þjónustu tryggður.

Umboðsmaður barna vill engu að síður koma á framfæri eftirfarandi ábendingum við einstaka greinar sem undirrituð telur ástæðu til að menntamálanefnd skoði nánar áður en frumvarpið verður samþykkt á hinu háa Alþingi.

5. gr.
Í greininni er kveðið á um þá skyldu sveitarfélags að sjá til þess að öll börn á skólaskyldualdri sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu njóti skólavistar og er þetta í samræmi við gildandi lög. Til embættis umboðsmanns barna hafa borist ábendingar er varða börn í tímabundnu fóstri sem synjað hefur verið um skólavist í viðtökusveitarfélagi, enda breytist ekki lögheimilisskráning  barns þegar þessu úrræði er beitt. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að taka þarf barn af heimili sínu tímabundið, en ljóst er að búa þarf því öruggt skjól á nýjum stað. Mikilvægt er að börnin upplifi sig sem þátttakendur og hluta af nýju samfélagi og er skólaganga og félagsleg tengslamyndun við jafnaldra ákveðinn og nauðsynlegur hlekkur í því ferli. Því er að mati umboðsmanns barna nauðsynlegt að börnum sem ráðstafað er tímabundið til annarra umönnunaraðila sé takmarkalaust tryggð skólaganga.

8. gr.
Til þess að renna stoðum undir nemendalýðræði í grunnskólum og tryggja að nemendur geti haft raunveruleg áhrif á skólaumhverfi sitt telur umboðsmaður barna afar mikilvægt að lögbundið verði að fulltrúar nemenda eigi sæti í skólaráði, enda má ætla að flestallt sem skólaráð fjallar um  tengist hagsmunum og velferð nemenda á einn eða annan hátt. Þá þarf að mati umboðsmanns barna að tryggja að greitt sé fyrir setu í skólaráðum. Jafnframt er mikilvægt að styrkja foreldrafélögin fjárhagslega.

11. gr.
Umboðsmaður barna fagnar því að auknar kröfur verði gerðar til ráðningar starfsliðs grunnskóla, þó undirrituð hefði kosið að sjá enn ríkari kröfur gerðar. Þá er mikilvægt að sveitarfélög og/eða grunnskólar setji sér verklagsreglur um hvernig taka beri á málum þegar grunur leikur á að barn hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi og rétt væri einnig að kveða á um skyldu starfsmanna til að vinna í fyllsta samræmi við líkamlegar og andlegar þarfir barnanna og að taka það sérstaklega fram að ekki megi beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum.

13. gr.
Í frumvarpsgreininni segir m.a. að gæta skuli þess að hæfilegt vinnuálag sé í skóla og að nemendur njóti hæfilegrar hvíldar. Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar er varða mikið vinnuálag barna í grunnskólum, sérstaklega efri bekkjardeildum. Umboðsmaður telur mikilvægt að hver og einn skóli setji sér viðmið og mörk varðandi námið og hvað teljist eðlilegt og hæfilegt námsálag. Þá er mikilvægt að kennarar einstakra greina hafi samráð sín á milli um verkefnaskil og kannanir sem lagðar eru fyrir nemendur á skólaárinu þannig að álagi sé hæfilega dreift yfir árið.

14. gr.
Í 1.mgr. segir að nemandi beri ábyrgð á eigin námi í samræmi við aldur. Rétt væri að bæta við þessari setningu „í samvinnu við kennara og foreldra“ líkt og gert var í fyrstu frumvarpsdrögunum.

Þá telur umboðsmaður barna að 3. og 4. mgr. 14.gr. séu ekki nægilega skýrar. Ekki sé ljóst hvaða tilvik eða hegðun nemanda réttlæti það að gripið sé til þeirrar neyðarráðstöfunar að vísa barni úr skóla. Einnig telur umboðsmaður barna ófært að ekki sé gert ráð fyrir ákveðnum tímafresti fyrir skólanefnd að finna annað skólaúrræði.

17. gr.
Umboðsmaður barna vill árétta mikilvægi þess, að það sé fyrst og fremst á forræði foreldra að taka ákvörðun um skólavist barna sinna með hagsmuni og velferð þeirra að leiðarljósi.  Verði ágreiningur milli foreldra og skólans um sérúrræði eða skólavist er mikilvægt að fleiri fagaðilar en skólastjóri komi að ákvörðun, t.a.m. nemendaverndarráð og aðrir sérfræðingar sem vinna með barninu.

18. gr.
Í 3. gr. frumvarpsins eru foreldrar skilgreindir sem þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaganna. Sérstaklega þarf að huga að því að samræmis gæti milli grunnskólalaga og 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 en það ákvæði veitir forsjárlausum foreldrum ákveðinn rétt til upplýsinga um barn.

20. gr. og 22. gr.
Umboðsmaður barna ítrekar mikilvægi þess að ráðist verði í gerð reglna og vinnuferla sem tryggi aðstöðu, aðbúnað, slysavarnir og öryggismál í skólanum, á skólalóð, í skólabíl. Þá þarf að vera ljóst að sveitarfélag ber ábyrgð á öryggi barna hvar sem þau eru á vegum skólans.

33. gr.
Undirrituð vill benda á mikilvægi þess að settar verði opinberar reglur og umgjörð vegna lengdrar viðveru barna á frístundaheimilum eða í heilsdagsskóla. Í dag ríkir mikil óvissa um  hvaða reglur gilda, ef einhverjar, um þetta mikilvæga úrræði, m.a. um starfsemina og aðbúnað barnanna þar.

36. gr. og 37. gr.
Umboðsmaður barna vill benda á mikilvægi þess að við mat á gæðum skólastarfs sé einnig hugað að úttekt á starfi nemenda- og foreldrafélaga og raunveruleg áhrif þeirra, hvernig almenn líðan nemenda er tryggð og hvernig tekið er á agamálum og félagslegum þáttum svo sem einelti.

47. gr.
Umboðsmaður barna hefur bent á að það gæti verið bót í því að stofnuð væri sérstök úrskurðarnefnd skólamála líkt og eru til staðar varðandi ýmsa aðra málaflokka.

Að lokum vill umboðsmaður barna undirstrika mikilvægi þess að ráðist verði strax í gerð reglugerða til þess að tryggja að markmið frumvarpsins og þau réttindi sem þar eru sett fram nái fram að ganga. Sérstaklega er mikilvægt að ráðist verði í gerð reglna og verkferla varðandi sérúrræði og  sérþjónustu samkvæmt frumvarpinu. Skilgreina þarf hvernig standa á að skimunum, athugunum og greiningum (m.a. hver framkvæmir þær) og samvinnu allra þeirra aðila sem koma að börnum með sérþarfir. Þá má nefna mikilvægi þess að nemendur geti leitað til skólahjúkrunarfræðings hvenær sem er á skólatíma og að starfsfólk grunnskólans hafi fjölbreytta menntun og þekkingu á langvinnum sjúkdómum og fötlunum sem áhrif hafa á skólagöngu barna.

Ljóst má vera að skóli án aðgreiningar er háleitt og gott markmið.  En til þess að það nái fram að ganga þarf húsnæði, aðgengi, aðbúnað/tækjabúnað, sem og kennslugögn, sem taka mið af fötlun og sérþörfum nemenda.  Auk þess þarf sérmenntaða kennara og starfsfólk ásamt  nægilegu fjármagni til að tryggja stuðning við einstaka nemendur.

Virðingarfyllst

 __________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica