25. nóvember 2015

Frumvarp til laga um fullnustu refsinga (heildarlög), 332. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um fullnustu refsinga (heildarlög), 332. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 25. nóvember 2015.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um fullnustu refsinga (heildarlög), 332. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 25. nóvember 2015.

Skoða þingskjalið.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Allsherjar- og menntamálanefnd

 

Reykjavík, 25. nóvember 2015
UB:1511/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um fullnustu refsinga (heildarlög), 332. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 17. nóvember sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna er ánægður með ýmsar breytingar sem koma fram í ofangreindu frumvarpi, t,d. varðandi möguleika ungra fanga til þess að fá reynslulausn eftir 1/3 hluta refsitímans, sbr. 4. mgr. 80. gr. og að sérstaklega sé áréttað að einungis skuli nota valbeitingu gegn börnum í ýtrustu neyð, sbr. 4. mgr. 11. gr. Þá fagnar umboðsmaður því sérstaklega að orðalag 44. gr. frumvarpsins taki mið af c-lið 37. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Með þessari breytingu er vonandi hægt að tryggja að börn undir 18 ára aldri verði ekki vistuð í fangelsi, nema í algjörum undantekningartilvikum.

Fyrrnefnd grein gerir ráð fyrir að það geti komið upp tilvik þar sem það er talið barni fyrir bestu að afplána refsingu í fangelsi. Telur umboðsmaður barna því ástæðu til að árétta í lögum um fullnustu refsinga mikilvægi þess að barnaverndaryfirvöld og fangelsismálayfirvöld vinni vel saman til þess að tryggja að afplánunin verðu uppbyggileg fyrir barnið. Þannig væri til dæmis ástæða til þess að taka fram í 24. gr. frumvarpsins að ávallt skuli gera meðferðaráætlun þegar fangi er undir 18 ára aldri og að slík áætlun skuli unnin í samvinnu við barnaverndaryfirvöld.

Í 48. gr. frumvarpsins er fjallað um heimsóknir barna í fangelsi. Eins og bent er á í athugasemdum með greininni er mikilvægt að börn sem heimsækja foreldri eða annan nákominn í fangelsi sé sýnd sérstök nærgætni. Hluti af því er að tryggja barnvænlegt umhverfi til heimsókna, þar sem tekið er sérstakt tillit til þarfa barna á mismunandi aldri. Í þessu sambandi vill umboðsmaður barna benda á mikilvægi þess að ákvarðanir sem varða heimsóknir í fangelsi, s.s. um aðstöðu og heimsóknartíma, taki ávallt  mið af því sem er börnum fyrir bestu, sbr. meðal annars 3. gr. Barnsáttmálans. Því miður hefur skort upp á þetta í framkvæmd, eins og nýlegar takmarkanir á opnunartíma Barnakots á Litla-Hrauni sýna. Umboðsmaður barna telur því ástæðu til þess að tiltaka sérstaklega í umræddri grein að öll fangelsi eigi að bjóða upp á barnvæna aðstöðu til heimsókna og að heimsóknartími þurfi að taka mið af þörfum barna.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að frumvarpið miði að rýmkun samfélagsþjónustu. Samfélagsþjónusta getur verið mun betri kostur fyrir ungmenni en hefðbundin fangavist, þar sem hún gefur þeim tækifæri til þess að axla ábyrgð á brotum sínum með uppbyggilegum hætti. Í athugasemdum með frumvarpinu er tekið fram að sérstaklega hafi verið skoðað hvort breyta ætti fyrirkomulagi samfélagsþjónustu þannig að í stað fullnustuúrræðis yrði hún ákveðin af dómstólum, en ekki var talin ástæða til þess þar sem núverandi fyrirkomulag hefur reynst vel. Umboðsmaður barna vill hins vegar benda á að í framkvæmd hefur þetta úrræði lítið gagnast börnum sem brjóta af sér, enda ber ekki að dæma þau til óskilorðsbundinnar refsivistar nema öll önnur úrræði hafi verið fullreynd. Telur hann því mikilvægt út frá hagsmunum barna að veita dómurum heimild til þess að dæma börn og ungmenni til að inna af hendi samfélagsþjónustu eða gera samfélagsþjónustu að skilyrði fyrir skilorðsbundinni frestun refsingar.

Að lokum vill umboðsmaður barna benda á að í frumvarpinu er notað hugtakið forráðamaður, sbr. meðal annars 33. og 48. gr. Í samræmi við núgildandi barnalög nr. 76/2003 er hins vegar réttara að nota hugtakið forsjáraðili.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica