7. apríl 2010

Frumvarp til laga um fjölmiðla, 423. mál

Menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um fjölmiðla, þskj. 740, 423. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 7. apríl 2010.

Menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um fjölmiðla, þskj. 740, 423. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 7. apríl 2010.

Skoða frumvarp til laga um fjölmiðla, þskj. 740, 423. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Nefndasvið Alþingis
B.t. menntamálanefndar
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík
 
Reykjavík, 7. apríl 2010
Tilvísun: UB 1004/4.1.1
 
 
 
 
Efni: Frumvarp til laga um fjölmiðla, þskj. 740, 423. mál.
Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. þann 16. mars 2010, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna  um ofangreint frumvarp. Umboðsmaður hefur áður sent umsögn um sama frumvarp til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem eftirfarandi atriði komu fram.
 
Fjölmiðlar hafa mikil áhrif í íslensku samfélagi, ekki síður á börn en fullorðna. Á undanförnum árum hafa embætti umboðsmanns barna borist ýmsar ábendingar varðandi fjölmiðlaumfjöllun og auglýsingar. Umboðsmaður barna hefur jafnframt ítrekað bent á nauðsyn þess að fjölmiðlar vandi val á því efni sem er sérstaklega ætlað börnum og sýni ekki efni sem telst ekki við hæfi barna. Þá hefur umboðsmaður sérstaklega beitt sér fyrir aukinni vernd barna gegn auglýsingum og annars konar markaðssetningu. Má í því sambandi nefna að umboðsmaður barna og talsmaður neytenda gáfu út  leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna sem tók gildi snemma árs 2009.
 
Sökum anna hefur umboðsmaður barna ekki tök á að fara í alla þætti frumvarpsins en mun þó fara yfir helstu atriði sem snerta börn sérstaklega og hafa komið við sögu embættisins á undanförnum misserum.
 
Fjölmiðlastofa
Með 7. gr. frumvarpsins er lagt til að stofnuð verði sjálfstæð stofnun sem hefur eftirlit með lögunum. Fjölmiðlastofu er meðal annars ætlað að stuðla sérstaklega að því að vernd barna verði virt, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Umboðsmaður barna fagnar þessari nýjung og bindur miklar vonir við að Fjölmiðlastofa geti sinnt því eftirliti og aðhaldi sem er nauðsynlegt til þess að tryggja fullnægjandi vernd barna gegn skaðlegu efni og  ágengri markaðssókn.
 
Börn í fjölmiðlum
 Í 26. gr. frumvarpsins er áréttað að fjölmiðlaþjónustuveitendur skuli halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og virða tjáningarfrelsi. Þá kemur fram að fjölmiðlaþjónustuveitendur skuli eftir fremsta megni gefa ólíkum hópum samfélagsins kost á að tjá skoðanir sínar og sjónarmið og stuðla að gagnkvæmum skilningi og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum mismunandi hópa í samfélaginu. Umboðsmaður barna vill árétta að þetta eigi að sjálfsögðu við um börn. Nauðsynlegt er að fjölmiðlar gefi börnum kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og virða þannig rétt þeirra til þess að láta í ljós skoðun sína og hafa áhrif, sbr. meðal annars 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í því sambandi má jafnframt benda á að umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því minnkandi framboði sem virðist vera á vandaðri afþreyingu fyrir börn og unglinga, eins og meðal annars kemur fram í VII. kafla frumvarpsins. Af a-lið 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna leiðir meðal annars að ríkið eigi að hvetja fjölmiðla til að dreifa upplýsingum og efni sem börn njóta góðs af félagslega og menningarlega.
 
Vernd barna gegn skaðlegu efni
Í 28. gr. frumvarpsins er fjallað um vernd barna gegn skaðlegu efni. Ákvæðið er að nokkru leyti sambærilegt og 1. mgr. 14. gr. núgildandi útvarpslaga nr. 53/2000. Umboðsmaður barna hefur ítrekað bent á að orðalag 14. gr. sé ekki eins skýrt og orðalag þeirrar tilskipunar sem ákvæðið byggir á, svo sem varðandi það hvað teljist dagskrártími sem hætta á að börn sjái viðkomandi efni. Framsetning 28. gr. frumvarpsins skýrir gildandi reglu betur og fagnar umboðsmaður því.
 
Orðalag umrædds ákvæðis byggir á tilskipun Evrópusambandsins og er þar meðal annars vísað til þess að ekki skuli sýna efni sem geti skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi. Er þetta sambærilegt orðalag og í núgildandi lögum. Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingu út af þessu orðalagi og hefur velt fyrir sér hvort að ofbeldi hafi ekki alltaf slæm áhrif á börn, hvort sem það er tilefnislaust eða ekki.
 
Hvernig fjalla fjölmiðlar um börn?
Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Endurspeglast það meðal annars í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ákvæðið felur í sér að nauðsynlegt er að reyna eftir fremsta megni að tryggja öryggi og velferð barna. Núgildandi lög og umrætt frumvarp taka tillit til sérstöðu barna að því leyti að ákveðnar takmarkanir eru á því að hægt sé að sýna efni sem er ekki við hæfi barna. Hins vegar er ekki fjallað sérstaklega um það hvernig skuli fjalla um börn og málefni þeirra í fjölmiðlum. Umboðsmaður barna hefur fengið ýmsar ábendingar um það að fjölmiðlar hugi ekki nægilega að vernd barna þegar um er að ræða umfjöllun um börn.
 
Þegar verið er að fjalla um börn með einum eða öðrum hætti þarf ávallt að huga að þeirri sérstöðu sem börn njóta samkvæmt lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum. Í 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er sérstaklega fjallað um mikilvægi fjölmiðla og ábyrgð þeirra gagnvart börnum. Í e-lið þess ákvæðis er tekið fram að aðildarríki skuli stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi reglur um vernd barna fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þeirra. Þegar fjallað er um börn eða unglinga á mjög meiðandi hátt getur það augljóslega haft mjög slæm áhrif á sjálfsmynd og velferð þeirra. Sem dæmi um umfjöllun sem er til þess fallin að skaða velferð barna eru viðkvæmar upplýsingar sem hægt er að rekja til einstakra barna, svo sem í þeim tilvikum sem börn eru brotaþolar. Þá vill umboðsmaður barna árétta að sérstaklega mikil ábyrgð hvílir á fjölmiðlum þegar þeir fjalla um unga afbrotamenn, enda er talið að neikvæð umfjöllun geti haft alvarlegar afleiðingar á sjálfsmynd þeirra. Vill umboðsmaður barna því koma þeirri ábendingu á framfæri að þörf er á sérstöku ákvæði sem leggur þá skyldu á fjölmiðla að gæta sérstakrar varkárni þegar verið er að fjalla um börn og tryggja að umfjöllun sé ekki til þess fallin að hafa meiðandi eða niðurbrjótandi áhrif.
 
Aukin neytendavernd barna
Í 38. gr. frumvarpsins er að finna sambærilegt ákvæði og er nú að finna í núgildandi útvarpslögum nr. 53/2000. Þó er að finna þá nýjung í c-lið að sérstaklega er fjallað um það að ekki skuli hvetja börn til neysla á matvælum og drykkjarvörum sem ekki er mælt með að börn neyti í óhóflegu mæli, svo sem matvæli sem innihalda mikla fitu, transfitusýru, salt/natríum og sykur. Umboðsmaður barna fagnar sérstaklega þessari nýjung, enda er hún í samræmi við fyrrnefndar leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna. Í því sambandi hafa umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hvatt til þess að stjórnvöld taki upp opinbert hollustumerki sem hægt væri að miða við.
 
Lokun fyrir aðgang
Að lokum vill umboðsmaður barna benda á að á undanförnum árum hafa komið upp vandamál með heimasíður sem eru vistaðar erlendis og hafa geyma meiðandi ummæli um íslensk ungmenni og myndir þar sem þau eru sýnd á kynferðislegan eða klámfengin hátt. Almennt virðist vera mikill vilji hjá netþjónustuaðilum til þess að loka fyrir aðgang á slíkar síður en til þess skortir þó fullnægjandi lagastoð. Vill umboðsmaður barna því hvetja til þess að lögfest verði heimild til þess að loka fyrir aðgang að erlendum síðum í sérstökum undantekningartilvikum til þess að tryggja vernd barna.
 
Virðingarfyllst
 
_____________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica