26. febrúar 2018

Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof (lenging fæðingarorlofs), 98. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof (lenging fæðingarorlofs), 98. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 26. febrúar 2018.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um  frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof (lenging fæðingarorlofs), 98. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 26. febrúar 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 26. febrúar 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof (lenging fæðingarorlofs), 98. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 9. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Rannsóknir hafa sýnt að fyrstu mánuðir í lífi barna hafa mikil áhrif á þroska, velferð, sjálfsmynd og samskipti seinna meir. Á þessum tíma er mikilvægt að börn fái fullnægjandi tækifæri til þess að mynda tengsl við aðalumönnunaraðila sína, sem oftast eru foreldrar. Umboðsmaður barna telur því mikilvægt að tryggja að ungbörn geti verið heima og notið umönnunar foreldra sinna sem lengst. Fagnar hann því tillögum um lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði.

Í breytingatillögunni er lagt til að sjálfstæður réttur hvers foreldris fyrir sig til töku fæðingarorlofs verði lengdur og verði fimm mánuðir í stað þriggja auk þess sem foreldrar eiga sameiginlega rétt á tveimur mánuðum í orlofi í stað þriggja. Umboðsmaður telur jákvætt að stuðla að því að tryggður sé réttur beggja foreldra til að taka 5 mánuði hvort um sig og tvo mánuði til að deila sín á milli þar sem ungbörn fái að njóta aukna samvista beggja foreldra, enda er réttur barna til að njóta umönnunar foreldra verndaður í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. 7. gr. laga nr. 19/2013.

Umboðsmaður barna vekur þó athygli á að brýnt er að endurskoða löggjöf um fæðingar og foreldraorlof enn frekar. Þá bendir hann á bréf sem hann sendi til félags- og húsnæðismálaráðherra 21. maí 2015 þar sem skorað er á ráðherra að beita sér fyrir því að lög um fæðingar- og foreldraorlof verði endurskoðuð, þannig að börnum verði ekki mismunað með ómálefnalegum hætti eftir stöðu foreldra þeirra.

  

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica