26. janúar 2018

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningaaldur)

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur), 40. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti þann 26. janúar 2018.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um  frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur),  40. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti þann 26. janúar 2018.

Skoða frumvarpið.
Skoða feril málsins.

 

 Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 26. janúar 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningaaldur), 40. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 21. desember sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hefur embætti umboðsmanns barna verið fylgjandi breytingum á kosningalöggjöfinni, sbr. umsögn sína um frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur), 190. mál. Hana veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 19. maí 2017 til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Þar kemur fram að mikilvægt sé að stuðla að lýðræðislegri þátttöku barna og að við hæfi sé að byrja á því að lækka kosningaaldurinn í sveitarstjórnarkosningum líkt og lagt er til með frumvarpinu, enda annast sveitarfélög stóran hluta þeirrar þjónustu sem hafa bein áhrif á daglegt líf barna.

Jafnframt veitti ráðgjafarhópur embættisins þar sem sitja börn á aldrinum 13-17 ára umsögn um frumvarpið en þar segir:

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna styður ofangreint frumvarp, af því að það er rosalega mikilvægt að ungt fólk fái að segja sína skoðun og að tekið sé mark á henni. Við vonum að þetta frumvarp verði að lögum og að þingmenn haldi áfram að taka skref í þá átt að auka þátttöku barna og ungmenna.

Eftir sem áður telur umboðsmaður mikilvægt að tekin sé afstaða til eftirfarandi atriða: 

  • Ekki er kveðið á um í frumvarpinu að börn fái kjörgengi samfara kosningarétti, en rétt væri að sú afstaða væri rökstudd í greinargerð. 
  • Frá 16 til 18 ára aldri eru einstaklingar börn og því í forsjá foreldra eða annarra forsjáraðila. Mikilvægt er að löggjafinn meti hvort að forsjáraðili geti með einhverjum hætti haft áhrif á kosningarétt barna við núverandi aðstæður, til dæmis um aðgengi að upplýsingum fyrir kosningar. Má í þessu sambandi nefna sendingu markpósta, aðgang stjórnmálaflokka að skólum eða nemendafélögum, til dæmis grunnskólum, en lækkun kosningaaldurs mun hafa í för með sér að hluti 10. bekkinga öðlast kosningarétt. Mikilvægt er að tryggt sé að foreldrar geti ekki með einhverjum hætti haft áhrif á kosningarétt barna verði kosningaréttur lækkaður.
  • Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu ungmennaráða í mörgum sveitarfélögum fyrir börn á aldrinum 13-17 ára. Fram kemur í athugasemdum við 11. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007, að ekki séu sett aldursviðmið um ungmennaráð. Þar sé oftast miðað við aldurshópinn 13 – 17 ára í ungmennaráð og vísað til þess að 18 ára séu ungmennin komin með kosningarétt og geti þá haft áhrif á val kjörinna fulltrúa með atkvæði sínu. Nauðsynlegt er að meta og taka afstöðu til þess hvort lækkun kosningaréttar eigi að takmarka setu barna 16 ára og eldri í ungmennaráðum sveitarfélaga með vísan í ofangreint.

Umboðsmaður tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum við frumvarpið þar sem fjallað er um mikilvægi aukinnar fræðslu til barna um stjórnmál og lýðræðislega þátttöku á öllum skólastigum. Aukin fræðsla og aðgengi að upplýsingum um stjórnmál á barnvænu formi er til þess fallin að auka áhuga og þátttöku barna í kosningum. Umboðsmaður telur því nauðsynlegt að með lækkun kosningaaldurs í sveitarstjórnarkosningum sé fræðsla til barna um stjórnmál og lýðræðisþátttöku efld til muna samhliða því, enda er aðgengi að upplýsingum forsenda fyrir því að geta tekið upplýsta ákvörðun. Þetta er ekki síður mikilvægt nú þegar skammur tími er til næstu sveitarstjórnarkosninga. Miklu skiptir, verði ákveðið að lækka kosningaaldur, að vel takist til frá upphafi.

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica