13. mars 2006

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum , 447. mál.

Menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum ,  447. mál.   Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 13. mars 2006.    

Skoða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum ,  447. mál, þskj 671
Skoða feril málsins

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík


Reykjavík,  13. mars  2006
Tilvísun: UB 0603/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum ,  447. mál.

Vísað er til bréfs menntamálanefndar Alþingis, dagsett þann 10. febrúar 2006, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna  um ofangreint frumvarp.

Í  frumvarpi þessu  eru gerðar  tillögur  um ýmsar breytingar á grunnskólalögum en jafnframt  hefur  menntamálaráðherra  boðað  endurskoðun  á  lögunum frá  grunni.  Slík  heildarendurskoðun er  að mati umboðsmanns barna brýn. Meðal þess sem þarf að skoða er   að skilgreina  réttindi  og skyldur nemenda  og  foreldra  betur en nú er gert og  jafnframt að  kveða með skýrum hætti á um hvernig  réttindum nemenda verði náð fram.  Stjórnsýslu  skólakerfisins þarf að skoða sérstaklega en hún  er hvorki nægilega  skýr  né  skilvirk þegar litið er til  þess  hve  veigamiklir  hagsmunir  nemenda  geta  verið í húfi.  Tryggja þarf að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga  gildi um allar ákvarðanir er varða réttindi og skyldur nemenda og  að  samræmis og  jafnræðis sé gætt við  túlkun  laganna með því að þær fái   ávallt  umfjöllun á tveim  stjórnsýslustigum.

Því er fagnað  að  í frumvarpi þessu hefur verið höfð hliðsjón af ýmsum ábendingum  umboðsmanns barna á undanförnum misserum, sbr. 2., 9., 10. og 19. gr. frumvarpsins.

Verður nú vikið að athugasemdum  við nokkrar  greinar  frumvarpsins.

3. gr.
Breyting sú sem gerð er á 2. málslið 1. mgr. 6. gr.,  þ.e.  viðbótin:  “eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda”  er  óskýr.  Samkvæmt  athugasemdum í frumvarpinu  er  með þessu  kveðið á um að skólastjóri:  “þurfi að taka tillit  til hlutverks barnaverndaryfirvalda vegna fjarveru barns frá skóla, með hliðsjón af tilkynningarskyldu til þeirra skv. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.”    Að mati  umboðsmanns barna  er  tilkynningarskylda skólastjóra  samkvæmt  nefndum ákvæðum  barnaverndarlaga  skýlaus  í  tilvikum sem þessum en ekki háð mati hans.   Lög  um grunnskóla  leggja  einungis eina skyldu  á herðar  foreldra, sbr. 6. gr. þeirra, þ.e. að barn  innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og  sæki skóla.         Leiði athugun skólastjóra á því, hverju misbrestur á skólasókn sæti,   í ljós að  hvorki  veikindi barns né aðrar gildar ástæður hamli, þá má ljóst vera að foreldrar eru að bregðast skyldum sínum samkvæmt grunnskólalögum sem og forsjárskyldum sínum. Ber því að tilkynna barnaverndarnefnd um það.  Skólastjóri tekur þá á þeim þætti málsins sem snýr að  skólasókn barnsins  en   barnaverndarnefnd  tekur mál barnsins til skoðunar  að öðru leyti.  Athyglisvert er   hversu fáar tilkynningar  berast til barnaverndarnefnda frá  skólum, en samkvæmt  skýrslu Barnaverndarstofu um tilkynningar árið 2005 bárust aðeins 9,6 % allra tilkynninga frá skólakerfinu.   Með vísan til framangreinds   er rétt að gera  orðalag greinarinnar skýrara að þessu leyti.         Því er gerð tillaga um  að  2. málsliður 1. mgr. 6. gr. orðist svo: “ Verði misbrestur á skólasókn barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita leiða til úrbóta.  Jafnframt skal hann tilkynna barnaverndaryfirvöldum  um málið.”

Umboðsmaður barna telur  jafnframt rétt að  gera ráð fyrir því í 2. mgr.  6. gr. að forráðamenn nemanda geti vísað  máli til úrlausnar skólanefndar eins og  skólastjóri, sætti þeir sig ekki við  ákvörðun hans. Misbrestur á skólasókn gæti stafað af  atvikum er snúa  að skólanum sjálfum, t.d. að  barn  sæti  einelti, sem skólastjórnin hefur ekki tekið á að mati forráðamanna þess.

5. gr.
Ósk  forráðamanns  skólaskylds nemanda um  tímabundna undanþágu frá skólasókn getur varðað nemanda miklu.  Því er rétt  að huga að því að  forráðamaður hans   geti vísað synjun skólastjóra   um undanþágu til skólanefndar.

8. gr.
Með breytingu þessari er  vægi foreldraráða  aukið  og er það vel.  Þó væri rétt að kveða á um  að foreldraráð skuli fá mál til umsagnar   ”áður en  endanleg ákvörðun  um þær   er tekin”  í stað   ”liggur fyrir”  en þar á  getur verið  nokkur  merkingarmunur  að lögum.   Sama á við um  lokamálslið  9. gr. frumvarpsins.

9. gr.
Með þessari grein er gert skylt  að stofna nemendaráð við alla skóla í stað þess að það er heimilt nú. Er þessari breytingu sérstaklega fagnað enda er  hér  farið að tillögu  fyrrverandi umboðsmanns barna.   Þó   eru það vonbrigði að í frumvarpinu er aðeins gert ráð fyrir að  nemendaráð fái skólanámskrá og aðrar áætlanir eða breytingar varðandi skólahald  til kynningar.   12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna leggur þá skyldu á aðildarríki hans  að  þau tryggi barni, sem getur myndað eigin skoðanir, rétt til að láta þær frjálslega í  ljós í öllum þeim málum, sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við  aldur þess og þroska. Með vísan til þessarar skuldbindingar, sem Ísland hefur undirgengist,  er  ótvírætt að kveða þarf á um  rétt  nemendaráðs  til að fá mál til umsagnar eða  a.m.k. kveðið á um rétt þess til  að  koma á framfæri  athugasemdum.

10.  og   11. gr.
Breytingum þeim sem felast í  þessum greinum frumvarpsins er sérstaklega fagnað.

14. gr.
Ef  hreyft er  við  4. mgr. 29. gr. grunnskólalaga  væri rétt að  breyta henni þannig: ”Markmið  náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun  vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, fötlunar og stöðu að öðru leyti.”       Þannig verður   ótvírætt að ekki er um tæmandi talningu að ræða,  sbr.  og   orðalag  65. gr. stjórnarskrárinnar.

16. gr.
Í grein þessari er  áréttað  að skólanámskrá  skuli  kynnt  nemendaráði.  Hér  er gerð sama  athugasemd og við  9. gr. hér að framan,  þ.e. að  rétt væri  að  gera þá breytingu  að nemendaráð fái  skólanámskrá til umsagnar eða  a.m.k. að það geti  komið að athugasemdum  sínum  við hana áður en hún er lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar.

17. gr.
Eins og segir í athugasemdum  felur grein þessi í sér auknar heimildir til mats á námi utan grunnskóla til valgreina.  Ekki kemur fram í 32. gr. grunnskólalaga  hver meta skuli en í 4. gr. reglugerðar nr. 387/1996 segir að skólastjóra sé heimilt, í samráði við nemanda og forráðamenn, að meta  tímabundna þátttöku í atvinnulífi sem valgrein eða hluta af valgrein.  Miklu getur varðað fyrir nemanda  að fá starf eða nám utan grunnskóla metið sem valgrein og ljóst að ákvörðun skólastjóra í þessu efni varðar réttindi og skyldur nemanda.  Af þeirri ástæðu er því  rétt   að kveða á um rétt forráðamanna hans til að  kæra synjun skólastjóra  til  skólanefndar.

19. gr.
Við  35. gr. laganna er bætt nýrri málsgrein sem verður  1. mgr. þar sem kveðið er á um   rétt nemenda til hvetjandi námsumhverfis í viðeigandi húsnæði sem  tekur mið af  þörfum þeirra, öryggi   og  almennri vellíðan.    Þessari  tillögu er fagnað enda er hér farið að ábendingu umboðsmanns barna.  Ekkert ákvæði hefur verið að finna í  íslenskum lögum, sem kveður á um skýlausan rétt nemenda í þessu efni.  Lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,  sem ætlað er að tryggja  öruggt og heilsusamlegt  starfsumhverfi,  tekur  til skóla landsins,  en aðeins að því er varðar starfsfólk þeirra.  Hér er því  um réttarbót að ræða.

Hins  vegar  er rétt að benda  á að  tryggja  þarf  rétt nemenda í þessu efni með því að  kveða á um hvert  þeir og forráðamenn þeirra geta leitað, telji þeir aðbúnaði eða öryggi ábótavant.  Jafnframt  þarf að tryggja að  forráðamenn geti á grundvelli þessa ákvæðis beint  erindi til skólastjóra um að grípa til aðgerða vegna aðstæðna í skólanum, er valda nemendum vanlíðan,  t.d. vegna  eineltis.

Þá er í 19. gr. lögð til breyting á 5. mgr. 35. gr. laganna þar sem  gert er ráð fyrir að draga úr afskiptum menntamálaráðuneytis af málefnum einstakra  grunnskólanemenda með því  að skólastjórum verði heimilað að veita undanþágur frá  skyldunámi í tilteknum námsgreinum í stað ráðherra áður.  Ekki er gerð  athugasemd við þessa breytingu  að því tilskyldu  að  kveðið verði á um að  forráðamenn nemanda  geti kært  synjun  skólastjóra  til skólanefndar, enda er hér um að ræða ákvörðun um réttindi og skyldur viðkomandi nemanda.

20. gr.
Í greininni er  lögð til breyting á málsmeðferðarreglu  41. gr. laganna til að gera hana skýrari en nú er.  Breytingin er  til bóta.  Rétt er þó  að  leggja áherslu á að  kveða þarf á um skyldu  skólastjóra   og skólanefndar til að  gera  forráðamönnum nemanda   grein fyrir  þeim reglum sem um málsmeðferðina gilda, m.a. um kærurétt.

Með vísan til framangreindra  athugasemda   er lýst yfir stuðningi við framkomið frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1995 um grunnskóla.


Virðingarfyllst,
Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica