3. nóvember 2008

Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum, 19. mál

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum.  Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 3. nóvember 2008.

Skoða frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum, 19. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 3. nóvember 2008

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett þann 28. október 2008, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna fagnar 1., 2. og 4. gr. frumvarpsins sem lúta að því að tiltaka berum orðum vernd barna gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeli í barnalögum og barnaverndarlögum. Í 19. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er börnum tryggð vernd gegn hvers konar ofbeldi, hvort sem það er í umsjá foreldra eða annarra. Til þess að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt þessu ákvæði telur undirrituð nauðsynlegt að það komi berum orðum fram í lögum að barn eigi rétt á vernd gegn hvers konar ofbeldi foreldra sinna, eins og fyrri umboðsmaður benti m.a. á í umsögn sinni með frumvarpi því er varð að barnalögum nr. 76/2003. Það leiðir jafnframt af 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í því felst að nauðsynlegt er að tryggja börnum fullnægjandi vernd gegn ofbeldi.

Í 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um breytingu á 1. og 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þannig að það sé berum orðum gert refsivert að beita barn líkamlegum og andlegum refsingum. Í greinargerð með frumvarpinu er því til stuðnings vísað í dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 14. ágúst 2008. Umboðsmaður hefur gagnrýnt þann dóm sbr. umfjöllun á heimasíðu embættisins. Undirrituð fagnar umræddri breytingu, einkum í ljósi þeirra krafna sem gera verður til skýrleika refsiheimilda sbr. 1. mgr. 69. stjórnarskrárinnar.

Hvers kyns ofbeldi gagnvart börnum er ólíðandi, hvort sem ofbeldið er andlegt eða líkamlegt. Unirrituð lýsir því yfir ánægju með ofangreint frumvarp.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica