4. desember 2013

Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 og lögum nr. 80/2011, um breytingu á þeim lögum (rekstur heimila fyrir börn), 186. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um barnaverndarlög (rekstur heimila fyrir börn), 186. mál. Umboðsmaður barna veitti umsögn sína með tölvupósti dags. 4.desember 2013.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um barnaverndarlög (rekstur heimila fyrir börn), 186. mál. Umboðsmaður barna veitti umsögn sína með tölvupósti dags. 4.desember 2013.

Skoða frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 og lögum nr. 80/2011, um breytingu á þeim lögum (rekstur heimila fyrir börn), 186. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Velferðarnefnd

Reykjavík, 4. desember 2013

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 og lögum nr. 80/2011, um breytingu á þeim lögum (rekstur heimila fyrir börn), 186. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 25. nóvember sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna þakkar velferðarnefnd fyrir það tækifæri að koma á fund nefndarinnar hinn 26. nóvember sk. til þess að ræða frumvarpið. Umboðsmaður ítrekar hér með þau sjónarmið sem hann kom á framfæri á fundi nefndarinnar.

Umboðsmaður barna lýsir yfir miklum vonbrigðum með að stefnt sé að því að hverfa frá áformum um að færa heimili barna samkvæmt 84. gr. barnverndarlaga nr. 80/2002 frá sveitarfélögum til ríkisins. Eins og umboðsmaður barna benti á í umsögn sinni við frumvarp það er varð að lögum nr. 80/2011 telur hann mikilvægt að ríkið beri ábyrgð á því að tryggja fagleg úrræði fyrir öll börn sem geta af einhverjum ástæðum ekki búið heima hjá sér. Eins og staðan er nú er ljóst að sveitarfélög eru misvel í stakk búin að tryggja slík úrræði. Er börnum því mismunað eftir búsetu að þessu leyti og samræmist það ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013.

Umboðsmaður barna gerir sér grein fyrir því að ekki er hægt að færa ábyrgð á rekstri heimila frá sveitarfélögum til ríkisins án þess að tryggt verði aukið fjármagn til Barnaverndarstofu. Umboðsmaður barna telur hins vegar óásættanlegt að Alþingi og stjórnvöld standi ekki við skuldbindingar sem búið er að samþykkja með lögum, sérstaklega þegar um er að ræða úrræði í þágu barna. Má í því sambandi minna á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans eiga hagsmunir barna að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Í því felst meðal annars að hagsmunir barna eiga að ganga framar hagsmunum annarra hópa þegar teknar eru ákvarðanir um ráðstöfun opinbers fjármagns.

Að lokum vill umboðsmaður barna ítreka hversu mikilvægt það er að tryggja stöðugleika þegar kemur að málefnum barnaverndar. Barnaverndarkerfinu er ætlað að tryggja hagsmuni þeirra barna sem eru í viðkvæmustu stöðunni og standa höllum fæti í samfélaginu. Er því sérstaklega brýnt að fjárhagslegur ágreiningur skapi ekki óvissu um eða bitni á þeirri þjónustu sem barnaverndinni er ætlað að veita.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica