28. mars 2018

Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (stefnandi faðernismáls), 238. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (stefnandi faðernismáls), 238. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 28. mars 2018.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (stefnandi faðernismáls), 238. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 28. mars 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

 

Reykjavík, 28. mars 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (stefnandi faðernismáls), 238. mál.

 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 6. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á barnalögum þess efnis að felld verði niður núgildandi takmörkun á heimildum karlmanns til höfðunar á faðernismáli til að fá staðfestingu á því hvort hann sé í raun líffræðilegur faðir barns ásamt því að lagt er til að karlmaður sem telur sig föður barns fái heimild til höfðunar dómsmáls til vefengingar á faðerni barns. 

Samkvæmt ákvæðum Barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, er það grundvallarréttur barns að þekkja uppruna sinn og þá eiga börn eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Þá á barn sem myndað getur eigin skoðanir rétt á að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans. Það er meginregla Barnasáttmálans að skoðanir barns fá aukið vægi eftir því sem það eldist og þroskast og stálpuð börn eiga því ríkan rétt á að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar eru um þeirra aðstæður og hagi. Umboðsmaður barna áréttar að frumvarpið gerir ekki greinarmun á stálpuðum börnum og yngri börnum að þessu leyti og hvorki í frumvarpi né greinargerð með því er fjallað um mikilvægi þess að börn fái að tjá sig við meðferð slíkra mála sem varða mikilvæga hagsmuni þeirra.

Umboðsmaður barna áréttar að í frumvarpinu og greinargerð með því er ekki fjallað um tiltekin álitamál er varða stöðu barns sem stendur frammi fyrir mögulegri breytingu á feðrun. Barn getur hafa myndað náin tengsl við aðila sem hefur gengið því í föðurstað og veitt því umönnun og uppeldi og þá getur barn hafa staðið í þeirri trú að um líffræðilegan föður þess sé að ræða. Að fá staðfestingu, í kjölfar dómsmáls, á því að líffræðilegur faðir sé í raun annar einstaklingur getur verið barni og fjölskyldu þess mikið áfall. Að mati umboðsmanns barna er bagalegt að ekki sé gert ráð fyrir því að samhliða samþykkt frumvarpsins verði gripið til ráðstafana til að tryggja að barni og fjölskyldu sem standa frammi fyrir slíkum breytingum standi til boða sérhæfð ráðgjöf og stuðningur. 

Umboðsmaður áréttar að ekki liggja fyrir upplýsingar um þann fjölda mála sem gera má ráð fyrir að komi fyrir dómstóla verði framangreint frumvarp að lögum. Þó svo að ekki sé líklegt að um mikinn fjölda tilhæfulausra málssókna verði að ræða ber þó að líta til þess að slíkt getur verið barni til mikils ama og raskað ró og friðhelgi fjölskyldu. Í greinargerð með frumvarpi kemur fram að ótti við tilhæfulausar málshöfðanir sé ástæðulaus og að réttarfarsreglur og málsmeðferð faðernismála ættu að koma í veg fyrir slíkt. Það er þó ekki að finna neina heimild í lögum til þess að stöðva slíka málssóknir. 

Löng hefð er fyrir norrænni samvinnu á sviði sifjaréttar og hefur íslensk þróun á þessu sviði jafnan tekið mið af réttarreglum annarra norrænna ríkja. Í sænskri og danskri löggjöf er kveðið á um heimild til höfðunar vefengingarmáls til að hnekkja faðerni barns en sú heimild sætir þó ákveðnum takmörkunum þar sem leiða þarf að því líkur að annar karlmaður en eiginmaður móður sé faðir barns. Að mati umboðsmanns barna ætti að taka til skoðunar hvort falla beri frá tillögum frumvarpsins um óhefta málsaðild og þess í stað taka til skoðunar breytingar sem miða að rýmkun málsaðildar í samræmi við norræna framkvæmd. 

Með frumvarpinu eru lagðar til veigamiklar breytingar á ákvæðum barnalaga sem varða mikilvæga hagsmuni barna en að mati umboðsmanns barna er afar brýnt að ekki sé ráðist í breytingar af þessum toga án þess að byggt sé á vönduðum undirbúningi, víðtæku samráði við fag- og hagsmunaaðila og undangengnu mati á áhrifum slíkra breytinga.

 

Virðingarfyllst,
Salvör Nordal,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica