3. desember 2007

Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum, 149. mál.

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum, 149. mál.  Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 3. desember 2007. 

Skoða frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum, 149. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna 


Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 3. desember 2007
UB: 0712/4.1

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum, 149. mál.
 
Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 13. nóvember 2007,  þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.
 
Frumvarpið boðar nokkrar grundvallarbreytingar á barnalögum. Mikilvægt er að slíkar breytingar sem varða réttindi, velferð og hagsmuni barna séu teknar af vel ígrunduðu máli. Allar breytingar á barnalögum verða fyrst og fremst að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi. Umboðsmaður barna hefur ekki tök á að svara frumvarpi þessu í heild sinni á svo skömmum tíma, en vill þó koma á framfæri eftirfarandi. Undirrituð telur ofangreint frumvarp fela í sér viðamiklar breytingar sem að töluverður leyti snúast um hagsmuni og réttindi foreldra, en ekki hagsmuni barna. Á undanförnum árum hefur þróunin verið í þá átt að báðir foreldrar taki jafnari þátt í umönnun og uppeldi barna sinna og er það er af hinu góða. Börn foreldra, sem búa ekki saman, dvelja nú í ríkara mæli til skiptis á tveimur heimilum. Það krefst mikillar aðlögunar og sveigjanleika af hálfu barnanna. Oftast virðist sem þetta fyrirkomulag gangi vel en hins vegar hafa embætti umboðsmanns barna borist ábendingar sem benda til þess að hagsmunir barnanna séu stundum fyrir borð bornir, þegar jafn afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar er varða þau. Umboðsmaður barna telur því réttast að sifjalaganefnd, þar sem helstu sérfræðingar á sviði barnaréttar sitja, komi að þessum breytingum á lögunum og fari yfir mál þessi í heild sinni. Hér á landi skortir enn rannsóknir á líðan og velferð þessara barna þegar fram í sækir. Því er nauðsynlegt að kynna sér vel rannsóknir, réttarframkvæmd og þróun þessara mála í helstu nágrannalöndunum. Lög eiga að sjálfsögðu ekki að hamla réttarþróun en breytingar er varða líf, hagsmuni og velferð barna verða að byggja á rannsóknum, umræðu og sátt í samfélaginu, þar sem að velferð barnanna er aðalatriðið.

Virðingarfyllst,

__________________________________
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica