2. desember 2015

Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (samfélagsþjónusta ungra brotamanna), 100. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (samfélagsþjónusta ungra brotamanna), 100. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. desember 2015.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (samfélagsþjónusta ungra brotamanna), 100. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. desember 2015.

Skoða þingskjalið.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Allsherjar- og menntamálanefnd

Reykjavík, 2.desember 2015
UB:1512/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (samfélagsþjónusta ungra brotamanna), 100. mál.  

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 20. nóvember sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Samkvæmt 40. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, eiga viðbrögð við afbrotum barna að miða að því að styrkja sjálfsmynd þeirra og hafa uppbyggileg áhrif. Samfélagsþjónusta er því úrræði sem gæti hentað vel fyrir börn sem brjóta af sér, þar sem hún gefur þeim tækifæri til þess að axla ábyrgð á hegðun sinni með uppbyggilegum hætti.

Núverandi fyrirkomulag samfélagsþjónustu nýtist börnum illa, enda ber ekki að dæma börn í óskilorðsbundið fangelsi nema ljóst sé að engin önnur úrræði duga til, sbr. b-liður 37. gr. Barnasáttmálans. Er því almennt gripið til annarra úrræða til þess að bregðast við afbrotum barna, svo sem ákærufrestunar eða skilorðsbundinna dóma. Þó er hætt við því að þessi úrræði séu almennt ekki vel til þess fallin að hafa uppbyggileg áhrif á börn, þar sem sjaldgæft er að þau séu bundin raunverulegum skilyrðum. Önnur úrræði, svo sem sáttamiðlun eða samfélagsþjónusta, krefjast þess mun frekar að börn horfist í augu við afleiðingar háttsemi sinnar og eru þannig líklegri til að hafa jákvæð áhrif á sjálfsmynd og hegðun barna. Hefur umboðsmaður barna því margoft bent á að það væri betur í samræmi við hagsmuni barna að að veita dómurum heimild til þess að dæma börn og ungmenni til þess að inna af hendi samfélagsþjónustu eða gera samfélagsþjónustu að skilyrði fyrir skilorðsbundinni frestun refsingar. Fagnar hann því ofangreindu frumvarpi og vonar að það verði að lögum.

Að lokum vill umboðsmaður barna minnast á orðanotkun í greinargerðinni en þar er talað um „unga brotamenn“. Umboðsmaður hefur undanfarin ár reynt að vekja athygli á mikilvægi þess að stimpla ekki börn með harkalegu orðalagi en slíkt getur ýtt undir neikvæða sjálfsmynd þeirra. Í framtíðinni gæti því verið heppilegra að tala um ungt fólk eða börn sem hafa brotið af sér.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica