1. apríl 2016

Frumvarp til laga um almannatryggingar (barnalífeyrir), 197. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um almannatryggingar (barnalífeyrir), 197. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 1. apríl 2016.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um almannatryggingar (barnalífeyrir), 197. mál. 

Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 1. apríl 2016.

Skoða frumvarpið.
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd Alþingis

Reykjavík, 1. apríl 2016
UB:1604/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til laga um almannatryggingar (barnalífeyrir), 197. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 10. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um almannatryggingar (barnalífeyrir).

Samkvæmt 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, eiga öll börn að njóta sömu réttinda og er skylt að tryggja að börnum sé ekki mismunað vegna stöðu þeirra sjálfra eða foreldra sinna. Umboðsmaður barna telur því jákvætt að ofangreint frumvarp miði að því að taka af allan vafa um það að öll börn sem eiga einungis eitt foreldri eigi rétt á barnalífeyri, óháð stöðu foreldra.

Foreldrar bera meginábyrgð á framfærslu barna sinna, en fjallað er um framfærslu barna í IX. kafla barnalaga nr. 76/2003. Eins og fram kemur í greinagerð með ofangreindu frumvarpi er barnalífeyri meðal annars ætlað að tryggja rétt til grunnframfærslu í þeim tilvikum sem barn á einungis eitt foreldri á lífi, sbr. 20. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Þannig er reynt að stuðla að því að barn, sem hefur misst foreldri sitt, njóti sama réttar til framfærslu og önnur börn. Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. barnalaga er heimilt að úrskurða þann sem er meðlagsskyldur til þess að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. Ljóst er að umrætt ákvæði á einungis við í þeim tilvikum sem meðlagsskylt foreldri er til staðar. Ekkert sambærilegt ákvæði á við þegar barnalífeyrir er greiddur með barni samkvæmt lögum um almannatryggingar. Er börnum því mismunað eftir stöðu foreldra að þessu leyti. Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 2. gr. Barnasáttmálans er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að börnum sé mismunað vegna stöðu foreldra sinna. Umboðsmaður barna skorar því á velferðarnefnd að beita sér fyrir því að lögum um almannatryggingar verði breytt, þannig að börn sem hafa misst annað eða báða foreldra sína eigi rétt á framlögum vegna sérstakra útgjalda, með sama hætti og þau börn sem eiga báða foreldra á lífi.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica