26. febrúar 2018

Frumvarp til laga um ættleiðingar (umsagnir nánustu fjölskyldu), 128. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um útlendinga (fylgdarlaus börn), 42. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. mars 2018.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um ættleiðingar (umsagnir nánustu fjölskyldu), 128. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 26. febrúar 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 26. febrúar 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um ættleiðingar (umsagnir nánustu fjölskyldu), 128. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 13. febrúar sl., þar sem óskað var eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Með ættleiðingu er leitast við að tryggja barni umönnun og uppeldi hjá fjölskyldu sem getur veitt því góðan aðbúnað. Ættleiðing er jafnframt úrræði sem felur í sér að lagaleg tengsl barnsins við upprunafjölskyldu eru rofin og réttur og skyldur kynforeldra til forsjár, framfærslu og umgengni flytjast yfir til kjörforeldra. Því er ljóst að ættleiðing hefur veigamikil áhrif á líf barns til framtíðar.

 Í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, kemur fram sú mikilvæga meginregla að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang við allar ráðstafanir er varða börn. Auk þess ber aðildarríkjum að tryggja  börnum þá vernd og þá umönnun sem velferð þeirra krefst. Þá verður að telja jákvætt að með frumvarpinu sé leitast við að tryggja, að við ákvörðun um fyrirhugaða ættleiðingu barns, sé litið til náinna tengsla þess við aðra ættingja en foreldra.

Í 21. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 er áréttað að við ættleiðingu sé tryggt að litið sé til þess sem er barninu fyrir bestu. Umboðsmaður telur jákvætt að með frumvarpinu sé leitast við að tryggja, að við ákvörðun um fyrirhugaða ættleiðingu barns, sé litið til náinna tengsla þess við aðra ættingja en foreldra þar sem slík umsögn á þátt í því að varpa ljósi á það hvað sé barninu fyrir bestu. Að mati umboðsmanns barna er slík umsögn í samræmi við þann grundvallarrétt barna að þekkja uppruna sinn. Umboðsmaður leggur þó áherslu á að öll börn eigi rétt á að tjá sig í öllum málum sem þau varða, og ber að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. Afstaða barns til ættleiðingar ætti því að fá aukið vægi, í samræmi við aldur og þroska þess og mikilvægt að barni sé ávallt gefinn kostur á að tjá sig í slíkum málum.

Í frumvarpinu er nánasta fjölskylda foreldris skilgreind með afar víðum hætti. Umboðsmaður barna telur jákvætt að svo sé þar sem barn getur verið í nánum tengslum við mismunandi aðila innan fjölskyldu. Þó telur umboðsmaður mikilvægt að öflun umsagnar nánustu fjölskyldu verði þess ekki valdandi að óhóflegar tafir verð á undirbúningi og töku ákvörðunar um ættleiðingu barns.

 

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica