22. janúar 2008

Frumvarp til laga til leikskólalaga, heildarlög, 287. mál.

Menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga til leikskólalaga, 287. mál, heildarlög. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags.22. janúar 2008.

Skoða frumvarp til laga til leikskólalaga, 287. mál, heildarlög.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík

Reykjavík, 22. janúar 2008

Efni: Frumvarp til laga til leikskólalaga, 287. mál, heildarlög.

Vísað er til bréfs menntamálanefndar Alþingis, dagsett 14. desember 2007,  þar sem óskað er eftir umsögn um ofangreint frumvarp. Umboðsmaður barna fagnar framkomnu frumvarpi til leikskólalaga og telur að í því felist mikil réttarbót fyrir börn, enda hefur í frumvarpinu verið tekið mið af mörgum athugasemdum umboðsmanns á fyrri stigum.

Umboðsmaður barna vill þó koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:

1. gr. Gildissvið
Þar sem skóli án aðgreiningar er opinber skólastefna hér á landi sem tekur jafnt til leikskólans sem annarra skólastiga eiga öll börn rétt á að sækja leikskóla, án tillits til líkamlegs og andlegs atgervis þeirra.  Til að taka af allan vafa um þetta atriði telur umboðsmaður barna rétt að bæta inn orðinu öll í aðra setningu fyrstu greinarinnar þannig að hún verði: „Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir öll börn undir skólaskyldualdri.“

2. gr. Markmið
Til að taka tillit til mismunandi þarfa einstaklinga og til að undirstrika mikilvægi einstaklingsmiðaðrar nálgunar telur umboðsmaður rétt að í greininni sé tekið fram að í leikskólanum skuli velferð og hagur hvers og eins barns hafður að leiðarljósi í öllu starfi, frekar en að tala um börn sem heild.

4. gr. Sveitarfélög
Til að jafna stöðu barna á landinu og með hliðsjón af 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, hefði umboðsmaður barna kosið að fastar væri að orði kveðið um skyldu sveitarfélaga til að bjóða öllum börnum upp á leikskóladvöl.

6. gr. Starfslið
Umboðsmaður barna fagnar því að auknar kröfur verði gerðar til starfsliðs leikskóla. Umboðsmaður hefði þó viljað sjá enn ríkari kröfu gerðar til starfsliðs leikskólanna um að þau hefðu einnig  ekki gerst brotleg við XXI, XXIII svo og XXIV kafla almennu hegningarlaganna nr. 19/1940.  Umboðsmaður telur mikilvægt að sveitarfélög og/eða leikskólar setji sér verklagsreglur um hvernig taka beri á málum þegar grunur leikur á að barn hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. 

Rétt væri einnig að kveða á um skyldu starfsmanna að vinna í fyllsta samræmi við líkamlegar og andlegar þarfir barnanna og að taka það sérstaklega fram að ekki megi beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum eða þvingunum.

Þá má nefna mikilvægi þess að það starfsfólk leikskólanna sem ekki hefur leikskólakennaramenntun hafi fjölbreytta menntun og þekkingu á langvinnum sjúkdómum og fötlunum sem hafa áhrif á leikskólagöngu barna

9. gr. Foreldrar
Umboðsmaður vill benda á 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 um  réttindi forsjárlaus foreldris um upplýsingar um barn, en gæta skal  samræmis við það ákvæði svo og 9. gr. frumvarpsins.

11. gr. Foreldraráð
Að lögbinda hlutverk og starfsemi foreldraráða við leikskóla er mikil réttarbót að mati umboðsmanns barna.  En í því sambandi væri þó hægt að ganga skrefinu lengra og tryggja fjárhagslegan stuðning sveitarfélaga við starf foreldraráða.

12. gr. Skólahúsnæði og aðstaða í leikskólanum
Í reglugerð um starfsumhverfi í leikskóla ætti að koma fram að sveitarfélög væru skuldbundin til að setja öryggisreglur fyrir leikskóla þar sem m.a. er kveðið á um ferli mála ef slys ber að höndum. Einnig ætti að gera ráð fyrir að rekstaraðilum leikskóla væri skylt að gera sérstakt mat á öryggismálum þeirra og að foreldrar geti krafist úrbóta ef þeir telja aðbúnað eða öryggi barna ábótavant.

19. gr. Ytra mat sveitarfélaga
Við mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs ætti að leitast við að ná fram afstöðu og upplifun leikskólabarna sbr. 12. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Umboðsmaður er hlynntari fyrri tillögu um útfærslu þessarar greinar sem gengur lengra en frumvarpið.
 
22. gr. Framkvæmd sérfræðiþjónustu
Í 1. mgr. er talað um að til þess að börn eigi rétt á sérstakri aðstoð og þjálfun þurfi að koma til mat viðurkenndra greiningaraðila. Í framkvæmd hafa biðlistar myndast og því finnst umboðsmanni orðalagið of þröngt. Á biðtíma eftir greiningu hefur stundum tapast möguleiki á snemmtækri íhlutun þegar um er að ræða þroskafrávik, fötlun eða aðra erfiðleika sem sérfræðingar gætu  byrjað að vinna með strax ef þeir álíta að ekki sé allt með felldu.  Að þessu sögðu bendir umboðsmaður á að hægt væri að bæta inn í málsgreinina eða annarra sérfræðinga þannig að hún verði: „Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila eða annarra sérfræðinga, eiga rétt á slíkri þjónustu.“

30. gr. Málsskotsréttur
Umboðsmaður barna hefur bent á gæti verið bót í því að stofnuð væri sérstök úrskurðarnefnd leikskóla/skólamála líkt og er staðar varðandi ýmsa aðra málaflokka .

Einnig vill umboðsmaður vill koma á framfæri við menntamálanefnd mikilvægi samstarfs leikskólans, heilsugæslunnar og barnaverndar. Barnavernd og heilsugæslan gegna mikilvægu hlutverki í því að hlúa að uppeldi, þroska og heilsufari barna. Mismunandi er hversu mikla þörf börn hafa á þjónustu þessara mikilvægu stofnanna en þegar um þroskafrávik, veikindi eða erfiðar aðstæður í fjölskyldum er að ræða getur skipt sköpum að góð samvinna sé á milli þessara stofnanna og leikskólans. Til að skjóta styrkari stoðum undir t.d. snemmtæka íhlutun væri mikill styrkur fyrir börn og fjölskyldur þeirra ef  ákvæði um samstarf leikskóla við heilsugæslu og barnaverndar væru sett inn í lög um leikskóla.

Að lokum má geta að umboðsmaður barna tekur undir álit nefndarinnar sem vann frumvarpið  um mikilvægi þess að gera nýjar reglugerðir við gildistöku laganna.

Virðingarfyllst,

__________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica