28. nóvember 2014

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015

Umboðsmaður barna ákvað að senda Fjárlaganefnd Alþingis athugasemdir sínar vegna fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps fyrir árið 2015. Umsögn sína sendi umboðsmaður barna í tölvupósti dags. 28. nóvember.

Umboðsmaður barna ákvað að senda Fjárlaganefnd Alþingis athugasemdir sínar vegna fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps fyrir árið 2015. Umsögn sína sendi umboðsmaður barna í tölvupósti dags. 28. nóvember.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Fjárlaganefnd

Reykjavík, 28. nóvember 2014 
UB:1411/4.1.1

Efni: Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015

Það voru mikil gleðitíðindi þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálinn) var lögfestur einróma á Alþingi í febrúar 2013, sbr. lög nr. 19/2013. Lögfesting sáttmálans fól í sér mikilvæga stefnuyfirlýsingu þess efnis að réttinda- og hagsmunamál barna eigi að vera forgangsmál, jafnt hjá löggjafanum sem og stjórnvöldum.

Umboðsmaður barna telur brýnt að þingmenn fylgi lögfestingu Barnasáttmálans eftir með virkum hætti og forðist allan niðurskurð sem bitnar með neikvæðum hætti á börnum og fjölskyldum þeirra. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans eiga hagsmunir barna ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Ber því ávallt að leita annarra leiða til hagræðingar í ríkisfjármálum en að skerða þjónustu við börn.

Niðurskurður undanfarinna ára hefur nú þegar bitnað illa á mörgum börnum, ekki síst þeim sem eru í viðkvæmri stöðu.Ljóst er að fjölmörg börn fá ekki þá þjónustu og aðstoð sem þau eiga rétt á. Sem dæmi má nefna að umboðsmaður barna hefur verulega áhyggjur af þvíað Barnaverndarstofu hafi ekki verið tryggt það fjármagn sem hún þarf til þess að sinna hlutverki sínu með fullnægjandi hætti.[1] Þá hefur hann ítrekað bent á mikilvægi þess að koma á fót nýju úrræði fyrir börn með alvarlegan vímuefnavanda.[2] Sömuleiðis skortir verulega upp á að börnum með geð- og hegðunarraskanir sé tryggð þjónusta við hæfi og eru dæmi um að börn þurfi að bíða í marga mánuði og jafnvel einhver ár eftir að komast að hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarmiðstöðinni.  Einnig má benda á að ekki hefur verið tryggt nægilegt fjármagn til þess að þær breytingar sem gerðar voru á barnalögum nr. 76/2003 með lögum nr. 61/2012 nái tilgangi sínum.[3] Þetta eru einungis nokkur dæmi um málaflokka sem umboðsmaður hefur miklar áhyggjur af og telur brýnt að tryggja aukið fjármagn. 

Meðal mikilvægustu grundvallarréttinda barna er rétturinn til þess að njóta verndar gegn hvers kyns ofbeldi, sbr. 19. gr. Barnasáttmálans. Ljóst er að ofbeldi hefur neikvæð og langvarandi áhrif á líf margra barna hér á landi. Má í því sambandi benda á skýrsluna Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir sem UNICEF gaf út í fyrra.[4] Brýnt er að bregðast hratt og rétt við þegar börn hafa orðið fyrir ofbeldi og veita þeim þá aðstoð og stuðning sem þau þurfa. Auk þess er mikilvægt að tryggja að til staðar séu reglulegar og markvissar forvarnir og fræðsla til fullorðinna og barna, en slíkt er til þess fallið að draga verulega úr tíðni ofbeldis gegn börnum. Umboðsmaður barna fagnaði því mikið þegar ákveðið var að auka framlög til ríkissaksóknara, lögreglu, fangelsismálayfirvalda og barnaverndar til þess að  efla forvarnir og auka þjónustu við börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í fyrirliggjandi fjárlögum er hins vegar gert ráð fyrir að þessi framlög verði að miklu leyti felld niður. Virðist gengið út frá því að um tímabundin framlög hafi verið að ræða, en ljóst er að ofbeldi gegn börnum er ekki tímabundinn vandi sem hægt er að leysa á stuttum tíma. Þar að auki er ofbeldi gegn börnum falinn vandi og má gera ráð fyrir að fjölmörg börn hafi orðið fyrir ofbeldi án þess að segja frá því. Með því að auka fræðslu og forvarnir er hægt að ná til þessara barna og veita þeim þann stuðning sem þau þurfa.

Umboðsmaður barna gagnrýnir harðlega þá ákvörðun að skerða ofangreind framlög. Hann skorar á fjárlaganefnd til þess að virða skuldbindingar sínar samkvæmt Barnasáttmálanum og setja hagsmuni barna í forgang.

Virðingarfyllst, 
Margrét María Sigurðardóttir, 
umboðsmaður barna


[1]  Sjá til dæmis svar Barnaverndarstofu (/media/273359/svar_bvs_til_ub_22_feb_2013_stada_barnaverndar.pdf), við bréfi umboðsmanns barna (/media/273459/bref_ub_til_bvs_12_feb_2013_uppl_um_stodu.pdf).

[2]  Sjá til dæmis frétt á heimasíðu embættisins frá 9. september 2013 (barn.is/frettir/2013/09/„ekki-moegulegt“-ad-koma-a-fot-urraedi-fyrir-boern-med-alvarlegan-vimuefna-og-afbrotavanda/).

[3]  Sjá til dæmis frétt á heimasíðu embættisins frá 20. júní 2014 (barn.is/frettir/2014/06/framkvaemd-breytinga-a-barnaloegum/).

[4] Skýrsluna má nálgast á heimasíðu UNICEF (unicef.is/rettindi-barna-a-islandi).    


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica