27. febrúar 2015

Frumvarp til almennra hegningarlaga (heimilisofbeldi), 470. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til almennra hegningarlaga (heimilisofbeldi), 470. mál. Umsögn sína sendi umboðsmaður með tövlupósti dags. 27. febrúar 2015.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um  frumvarp til almennra hegningarlaga (heimilisofbeldi), 470. mál. Umsögn sína sendi umboðsmaður með tövlupósti dags. 27. febrúar 2015.

Skoða frumvarp til almennra hegningarlaga (heimilisofbeldi), 470. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Allsherjar- og menntamálanefnd

UB:1502/4.1.1

Efni: Frumvarp til almennra hegningarlaga (heimilisofbeldi), 470. mál

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 6. febrúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Heimilisofbeldi hefur verulega neikvæð áhrif á velferð barna, hvort sem það beinist beinlínis gegn þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum. Er því brýnt að tryggja börnum sérstaka vernd gegn slíku ofbeldi, sbr. meðal annars 19. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður barna telur tímabært að lögfesta sérstakt ákvæði í almenn hegningarlög nr. 19/1940 þar sem lögð er refsing við heimilisofbeldi. Lögfesting slíks refsiákvæðis myndi ekki einungis auka refsivernd þolenda heimilisofbeldis heldur jafnframt fela í sér mikilvæga stefnuyfirlýsingu um alvarleika slíks ofbeldis. 

Að gefnu tilefni vill umboðsmaður barna benda á mikilvægi þess að þau börn sem búa við heimilisofbeldi fái ávallt þá aðstoð og þann stuðning sem velferð þeirra krefst. Má í því sambandi vekja athygli á tilraunarverkefninu „Þjónusta við börn sem búa við heimilisofbeldi“ sem Barnaverndarstofa stóð frá árinu 2011 til 2013, samstarfsverkefni félagsþjónustunnar og lögreglunnar á Suðurnesjum sem hófst árið 2013 og samvinnuverkefninu „Saman gegn ofbeldi“, sem Reykjavíkurborg og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hófu fyrr á þessu ári. Þessi verkefni miða meðal annars að því að tryggja að  starfsmaður barnaverndar fari ávallt með lögreglu í útkall vegna heimilisofbeldis þegar börn eru á heimilinu. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að slíkt verklag verði tekið upp í öllum sveitarfélögum,  þannig að öll börn sem búa við ofbeldi fái sambærilega aðstoð, án tillits til búsetu. Það getur skipt sköpum fyrir líðan og heilsu barns að fá stuðning um leið og lögregla er kölluð á heimili þeirra vegna ofbeldis. Sá fagaðili sem mætir á staðinn er í góðri aðstöðu til þess að meta þörf barnsins á áframhaldandi aðstoð og getur betur fylgt málinu eftir. Umboðsmaður barna hefur þó áhyggjur af því að í framkvæmd virðist áframhaldandi aðstoð og ráðgjöf fyrir barnið almennt háð því að foreldrar veiti samþykki. Ljóst er að foreldrar sem eru gerendur eða þolendur heimilisofbeldis eru oft illa í stakk búnir til þess að sinna skyldum sínum gagnvart börnum sínum. Telur umboðsmaður barna því mikilvægt að tryggja að börn geti fengið aðstoð og stuðning, óháð samþykki foreldra.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica