21. janúar 2022

Frásagnir barna af covid

Umboðsmaður heldur áfram að safna frásögnum barna um reynslu þeirra af því að vera börn á tímum heimsfaraldurs. Að þessu sinni er sjónum beint að að sóttkví, sýnatökum og einangrun. 

Faraldurinn hefur nú enn og aftur tekið nýja stefnu en börn hafa sýnt ótrúlega þrautseigju á síðustu misserum og ítrekað lagað sig að breyttum aðstæðum. Með hliðsjón af fenginni reynslu síðustu mánaða teljum við brýnt að safna á ný frásögnum barna, en þetta er í fjórða sinn sem slíkt er gert síðan faraldurinn hófst. 

Nú beinum við sjónum okkar sérstaklega að þeim sóttvörnum og takmörkunum sem börn hafa búið við, eins og sóttkví, einangrun, sýnatökur, og ekki síst bólusetningar. Við viljum koma sjónarmiðum barna á framfæri og í opinbera umræðu og viljum því vita hver er reynsla þeirra af umræddum ráðstöfunum og hverju þau vilja koma á framfæri til þeirra sem taka þær ákvarðanir sem að baki liggja.

Hugleiðingar barna geta verið af ýmsum toga og settar fram á þann máta sem hentar hverjum og einum. Allir grunnskólar hafa fengið bréf um framkvæmd og skil á efni en við bendum áhugasömum kennurum að hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst og óska eftir nánari upplýsingum. 

Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í málefni og reynsluheim barna.

Ítarefni: 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica