20. júní 2014

Framkvæmd breytinga á barnalögum

Umboðsmaður barna hefur sent innanríkisráðuneytinu bréf þar sem hann hvetur ráðherra til að fylgjast með því að þær breytingar sem gerðar voru á barnalögum í byrjun síðasta árs komi að fullu til framkvæmda.

Umboðsmaður barna hefur sent innanríkisráðuneytinu bréf þar sem hann hvetur ráðherra til að fylgjast með því að þær breytingar sem gerðar voru á barnalögum í byrjun síðasta árs komi að fullu til framkvæmda. Til þess að svo geti orðið þarf að tryggja sýslumannsembættunum það fjármagn sem þau þurfa til þess að fullnægja skyldum sínum samkvæmt nýju lögunum. Meðal nýmæla í barnalögum er að foreldrum er nú skylt að gangast undir sáttameðferð í málum sem varða forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför.

Í ljósi þess hversu mikilvægt er að umræddar breytingar komi til framkvæmda og eftir atvikum nái tilgangi sínum taldi umboðsmaður mikilvægt að fylgjast með framgangi þeirra og sendi því bréf til allra sýslumannsembætta á landinu þann 3. september 2013 og óskaði svara við nokkrum spurningum. Svör bárust frá 15 embættum. Sýslumannsembætti landsins hafa nú fengið senda samantekt úr svörum við spurningunum en bréfið til innanríkisráðherra er svohljóðandi:

Innanríkisráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík

Reykjavík, 10. júní 2014

 Efni: Samantekt úr svörum sýslumanna vegna breytinga á barnalögum

Með lögum nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum nr. 76/2003, með síðari breytingum (forsjá og umgengni), voru gerðar ýmsar breytingar sem geta haft mikil áhrif á líf barna. Einnig voru gerðar veigamiklar breytingar á hlutverki og verkefnum sýslumanna. Umboðsmaður barna gerir sér grein fyrir því að verkefni sýslumannsembætta, að innleiða þær nýjungar sem lögin kveða á um, er hvorki einfalt né auðleyst. Í ljósi þess hversu mikilvægt er að umræddar breytingar komi til framkvæmda og eftir atvikum nái tilgangi sínum taldi umboðsmaður mikilvægt að fylgjast með framgangi þeirra og sendi því bréf til allra sýslumannsembætta á landinu þann 3. september 2013 og óskaði svara við nokkrum spurningum. Svör bárust frá 15 embættum.

Samkvæmt svörunum virtist það koma einhverjum sýslumannsembættum töluvert á óvart að breytingarlögin skyldu taka gildi 1. janúar 2013 en til stóð að fresta gildistöku þeirra. Voru embættin því ekki tilbúin til að taka við þeim verkefnum sem lögin kveða á um og komu þau því að mörgu leyti ekki til framkvæmda fyrr en nokkrum mánuðum eftir gildistöku laganna. Þau sýslumannsembætti sem svöruðu bréfinu áttu það sameiginlegt að hafa hlotið einhverja fræðslu um þær breytingar sem lögin kveða á um. Þá virðast mörg embætti hafa lagt töluvert mikla vinnu í að innleiða breytingarnar og var sú vinna enn í gangi við árslok. Af svörunum má þó sjá vísbendingu um að erfiðara sé að koma lögunum að fullu til framkvæmda hjá minni sýslumannsembættum.  

Meðal þeirra nýmæla sem komu inn í barnalögin með lögum nr. 61/2012 er að foreldrum er nú skylt að gangast undir sáttameðferð í málum sem varða forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför, sbr. 33. gr. a. barnalaga. Öll þau sýslumannsembætti sem svöruðu bréfi umboðsmanns höfðu sótt fræðslu um sáttameðferð. Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur tekið að sér að leiðbeina öðrum embættum um framkvæmdina og sér auk þess um sáttameðferð hjá nokkrum embættum. Önnur embætti hafa auk þess gripið til ýmissa ráðstafana til þess að stuðla að faglegri sáttameðferð. Sem dæmi má nefna að eitt embætti hefur látið útbúa sérstakt herbergi fyrir sáttameðferð þar sem til staðar er fjarfundabúnaður fyrir þá sem eiga erfitt með að koma á staðinn. Þá eru dæmi um að embætti vinni saman, ýmist þannig að þau samnýti sérfræðinga eða fái starfsmenn lánaða frá öðrum embættum til að sinna sáttameðferð, í þeim tilgangi að tryggja hlutleysi. Reynslan af sáttameðferð samkvæmt nýju lögunum virðist almennt jákvæð þó ef til vill sé of snemmt að segja til um hvort hún hafi borið tilætlaðan árangur.

Eitt helsta markmiðið með umræddum breytingum var að gera vinnu sýslumannsembættanna þverfaglegri. Í þeim tilgangi er gert ráð fyrir því í lögunum að sýslumenn geti leitað liðsinnis sérfræðings í málefnum barna. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laganna geta sýslumenn annaðhvort ráðið til sín sérfræðinga eða gert samninga við utanaðkomandi sérfræðinga. Af þeim sýslumannsembættum sem svöruðu bréfinu hafði aðeins Sýslumaðurinn í Reykjavík ráðið til sín sérfræðinga í samtals 2,5 stöðugildi. Önnur sýslumannsembætti hafa annaðhvort gert þjónustusamninga við sérfræðinga eða leitað til einstakra utanaðkomandi aðila. Störf sérfræðinga hafa verið í lágmarki hjá einhverjum embættum en í mörgum hefur enn ekki reynt á þau störf.

Þau sýslumannsembætti sem svöruðu bréfi umboðsmanns voru ekki sammála um það hvaða áhrif umræddar breytingar hefðu haft á málshraða. Sum embætti töldu líklegt að málshraði myndi jafnvel aukast þar sem áður þurfti í einhverjum tilvikum að leita eftir áliti barnaverndarnefndar sem gat tekið langan tíma. Önnur embætti töldu hins vegar að skyldan til sáttameðferðar leiddi til þess að mál tækju almennt lengri tíma. Einhver töldu það þó alls ekki neikvætt þar sem mögulegt væri að fleiri málum myndi ljúka með sátt.

Lokaspurningin í bréfi umboðsmanns varðaði það hvernig sýslumannsembættin leituðust við að tryggja að sjónarmið barna heyrðist á öllum stigum máls. Svör embættanna voru misjöfn og bentu mörg þeirra réttilega á að það þyrfti að meta hvert tilvik fyrir sig út frá aldri og þroska barns. Það vakti hins vegar athygli umboðsmanns að einhver embætti virtust sjaldan ræða við börn og teldu sig ekki geta tryggt að tekið yrði tillit til sjónarmiða barna í málum sem væru til meðferðar. Er þetta ekki í samræmi við skyldur sýslumannsembættanna samkvæmt barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Nokkur embætti töldu líklegt að aðkoma sérfræðinga í málefnum barna myndi verða til þess að oftar yrði rætt við börn. Umboðsmaður barna telur brýnt að öll sýslumannsembætti virði rétt barna til þess að tjá sig í málum sem þau varða og tryggi aðkomu þeirra í öllum málum, hvort sem um er að ræða sáttameðferð eða mál sem leysa þarf með úrskurði. 

Ljóst er að umræddar breytingar á barnalögum munu ekki skila þeim árangri sem að var stefnt nema tryggt verði aukið fjármagn til sýslumannsembætta. Mörg sýslumannsembætti lýstu yfir áhyggjum af því að ekki yrði tryggt það fjármagn sem nauðsynlegt væri til að lögin kæmu að fullu til framkvæmda. Sem dæmi má nefna að sum embætti nefndu að oftar myndi verða leitað til sérfræðings í málefnum barna ef til staðar væri meira fjármagn.

Umboðsmaður barna hvetur innanríkisráðherra til þess að fylgjast með því að umræddar breytingar komi að fullu til framkvæmda og tryggja sýslumannsembættum það fjármagn sem þau þurfa til þess að fullnægja skyldum sínum samkvæmt barnalögum. 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica