4. september 2018

Fræðsluskylda stjórnvalda

Eftirfarandi bréf var sent til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna fræðsluskyldu stjórnvalda.

Fræðsluskylda stjórnvalda - bréf umboðsmanns barna til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Embættið fær reglulega ábendingar um mál barna á fræðsluskyldualdri sem sækjast eftir því að halda áfram námi eftir námshlé eða verið neituð skólavist vegna slakrar mætingar eða námsárangurs. 

Í kjölfar þessara ábendinga sendi umboðsmaður barna eftirfarandi bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytisins:

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sölvhólsgötu 4

101 Reykjavík

Reykjavík, 3. september 2018

Efni: Fræðsluskylda stjórnvalda

Í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrá, sbr. lög nr. 33/1944 kemur fram að öllum skuli tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Einnig er kveðið á um rétt barna til grunn- og framhaldsmenntunar við hæfi í 28. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Þá er fræðsluskylda stjórnvalda lögfest í 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 en þar segir að öll börn sem lokið hafa grunnskólanámi eða náð 16 ára aldri eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla og jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs.

Í greinargerð í frumvarpi því sem varð að lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 kemur fram að styrkja eigi rétt nemenda til skólavistar og náms m.a. með fræðsluskyldu stjórnvalda til 18 ára aldurs. Rökin fyrir því að kveða á um fræðsluskyldu fyrir börn á þessum aldri fremur en skólaskyldu voru sú að virða stigvaxandi rétt barna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um áframhaldandi nám eða starfsþjálfun. Ekki var þó ætlunin að gera minni kröfur til stjórnvalda þegar kemur að menntun barna á framhaldsskólaaldri. Þvert á móti er áréttað í athugasemdum í greinargerð með fyrrnefndu frumvarpi að fræðsluskyldan leggi þá skyldu á menntamálaráðuneytið að tryggja að fyrir hendi sé svigrúm sem gefi öllum börnum sem eftir því leita kost á námsvist í framhaldsskóla. Jafnframt er tekið fram í greinargerð að nemendum er ætlað að virða þær skyldur sem fylgja námsvist í framhaldsskóla, en þær lúta að skólasókn, hegðun og umgengni, námsmati, framvindu og prófreglum, að skólareglur séu virtar o.s.frv. 

Umboðsmanni barna berast reglulega ábendingar um mál barna sem eru á fræðsluskyldualdri og sækjast eftir því að halda áfram námi eftir að hafa áður hætt eða verið meinað um áframhaldandi skólavist. Oftar en ekki er ástæða þess að börnin fá ekki lengur að sækja framhaldsnám í tilteknum framhaldsskóla sú að þau hafi verið með slaka mætingu eða ekki náð fullnægjandi námsárangri. Dæmi eru um að börn hafi tekið áfanga í fjarnámi frá öðrum skóla til að auka möguleika sína á að halda áfram námsgöngu sinni og sýna þannig áhuga á áframhaldandi námi. Eftir sem áður virðist vera erfitt fyrir börn í þessari stöðu að komast aftur inn í dagskóla þrátt fyrir að hafa sýnt skýran vilja til þess að stunda nám. Í ljósi réttinda barna til menntunar og fræðsluskyldu stjórnvalda fram að 18 ára aldri vaknar sú spurning hvað í raun felist í fræðisluskyldunni ef börn í þessari stöðu fá ekki áframhaldandi skólavist í einhverjum framhaldsskóla og hvaða skuldbindingar fræðsluskyldan sem lögfest var árið 2008 leggi á framhaldsskólana umfram það sem áður var.

Stjórnvöldum ber að tryggja rétt þeirra barna sem sækjast eftir því að stunda nám í framhaldsskóla fram að 18 ára aldri. Í ljósi framangreinds óskar umboðsmaður barna eftir svörum ráðuneytisins við því hvernig fræðsluskyldan er tryggð í framkvæmd og hvernig réttur barna til að komast inn og stunda nám í framhaldsskóla er virtur. Einnig óskar umboðsmaður sérstaklega eftir svörum við því hvernig tryggt sé að börnum á fræðsluskyldualdri sem vísað hefur verið úr framhaldsskóla eða hafa áður hætt námi einhverra hluta vegna, geti fengið skólavist í framhaldsskóla að nýju ef þau leita eftir henni, líkt og þau eiga rétt á samkvæmt 32. gr. framhaldsskólalaga og 28. gr. Barnasáttmálans. Í þessu samhengi bendir umboðsmaður á að stjórnvöldum er skylt að veita umboðsmanni barna allrar þær upplýsingar sem hann óskar eftir til að hann geti sinnt hlutverki sínu, sbr. 5. gr. laga um umboðsmann barna, nr. 83/1994.

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna

 

Mynd af dúfum: Karin Beate Noesterud /Norden Org


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica