18. nóvember 2015

Fræðslumynd fyrir börn um kynferðislegt ofbeldi

Stýrihópur velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og innanríkisráðuneytis um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, ásamt Barnaverndarstofu og umboðsmanni barna hafa óskað eftir því við skólastjórnendur grunnskóla að sýna fræðslumyndina sem hér fylgir í skólum þann 18. nóvember. Með því móti geti skólarnir lagt sitt af mörkum til að leiðbeina börnum sem kunna að vera í viðkvæmri stöðu og stuðlað jafnframt að aukinni samfélagsvitund um kynferðisofbeldi gegn börnum.

Evrópuráðið gerði teiknimyndina í tilefni dagsins. Hún er um 3 mínútur að lengd og var unnin í samráði við hóp barna. Myndin er með einföldum og aðgengilegum boðskap fyrir börn á aldrinum 9–13 ára. Börn eru hvött til þess að leita til einhvers sem þau treysta ef þau eða einhver sem þau þekkja hefur verið eða er beittur ofbeldi. Myndin er með íslensku tali, með leyfi Evrópuráðsins, og er aðgengileg á vefsíðum velferðarráðuneytis, Barnaverndarstofu og  umboðsmanns barna.

Markmiðið þessa er að stuðla að aukinni umræðu og samfélagsvitund um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og að kynna  samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi, svonefndan Lanzarote-samning. Samningurinn er heildstæðasta og víðtækasta alþjóðasamþykkt sem gerð hefur verið um vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Ísland undirritaði Lanzarote-samninginn árið 2008 og fullgilti hann árið 2012.

Fræðslumynd fyrir börn um kynferðislegt ofbeldi.  

 Gegn Kynferdisofbeldi


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica