18. ágúst 2011

Fræðsla um hlutverk skólaráða

Umboðsmaður barna hefur sent grunnskólum tölvupóst þar sem vakin er athygli á kynningarefni um skólaráð. Í erindinu er líka sagt frá því að til standi að safna upplýsingum frá skólum um starf nemenda í skólaráði og birta á vef umboðsmanns barna þannig að nemendur og skólar geti lært af því sem vel er gert í öðrum skólum hvað varðar nemendalýðræði.

Umboðsmaður barna hefur sent grunnskólum tölvupóst þar sem vakin er athygli á kynningarefni um skólaráð. Í erindinu er líka sagt frá því að til standi að safna upplýsingum frá skólum um starf nemenda í skólaráði og birta á vef umboðsmanns barna þannig að nemendur og skólar geti lært af því sem vel er gert í öðrum skólum hvað varðar nemendalýðræði.

Bréf umboðsmanns barna, sem sent var 18. ágúst 2011, er svohljóðandi:

Til skólastjórnenda

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á einblöðungi um skólaráð sem embættið gaf út. Einblöðungurinn er sérstaklega ætlaður nemendum grunnskóla og hefur að geyma upplýsingar úr grunnskólalögum og reglugerð um skólaráð ásamt nokkrum hagnýtum atriðum fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa í skólaráði. Opna einblöðung umboðsmanns barna um skólaráð (PDF).

Í könnun um skólaráð sem umboðsmaður barna lét gera árið 2009 kom fram að meirihluti skólastjórnenda töldu þörf á fræðslu til nemenda vegna setu þeirra í skólaráðum. Töluðu þá flestir um að fræða þyrfti nemendur um hlutverk þeirra og skyldur í skólaráðum en einnig um fundarsköp og aðkomu barnanna að fundum. Þar sem ákvæði um skólaráð kom fyrst inn í grunnskólalög sumarið 2008 eru margir óvissir um hvernig fara á að vegna aðkomu nemenda að skólaráðum.

Einblöðungurinn er aðeins gefinn út á netinu og vonast umboðsmaður barna til þess að starfsfólk grunnskólanna prenti hann út fyrir nemendur eða kynni innihald hans á annan hátt, sérstaklega fyrir þeim fulltrúum nemenda sem nú sitja í skólaráði. Einblöðungurinn er stuttur og hnitmiðaður en það er gert samkvæmt ósk ráðgjafarhóps umboðsmanns barna.

Í framhaldinu er ætlunin að safna upplýsingum frá skólum um starf nemenda í skólaráði og birta á vef umboðsmanns barna þannig að nemendur og skólar geti lært af því sem vel er gert í öðrum skólum. Ef þinn skóli getur nefnt dæmi um vel heppnaða tillögu eða málsmeðferð fulltrúa nemenda í skólaráði eða sagt frá því hvernig þið teljið heppilegast að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð þá eru allar ábendingar vel þegnar.

Kær kveðja,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica