26. júní 2007

Forsjá barna úr skilnuðum og sambúðarslitum 2006

Meðal þeirra 577 sambúðarslita sem urðu á árinu 2006 voru  357 fjölskyldur með börn undir 18 ára aldri og af 498 lögskilnuðum voru 327 barnafjölskyldur. Alls voru börn úr sambúðarslitum og lögskilnuðum 1.100.

Samkvæmt 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 á barn rétt á forsjá foreldra sinna uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það.  Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins. Forsjáraðilar hafa jafnframt rétt og skyldu til að vera fjárráðamenn barnsins. 

Meginreglan við skilnað eða sambúðarslit foreldra er sú að þeir fari áfram sameiginlega með forsjá barns síns.  Þessi regla kom inn í barnalög með breytingum á þeim árið 2006 en áður var sameiginleg forsjá valkostur sem foreldrar gátu samið um, en meginreglan var sú að forsjáin væri hjá öðru foreldrinu.  Reyndin hefur verið sú að æ fleiri foreldrar ákveða að fara saman með forsjá barns síns eftir skilnað og var því talið tímabært að gera þá skipan að meginreglu. Undanfarin fimm ár hefur verið algengast að forsjá sé í höndum beggja foreldra.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um skilnaði og sambúðarslit 2006, skildu 498 hjón að lögum og 577 pör slitu sambúð. Með sambúðarslitum er átt við tilkynningu um slit sambúðar skráðri hjá Þjóðskrá.

Meðal þeirra 577 sambúðarslita sem urðu á árinu 2006 voru  357 fjölskyldur með börn undir 18 ára aldri og af 498 lögskilnuðum voru 327 barnafjölskyldur. Alls voru börn úr sambúðarslitum og lögskilnuðum 1.100.

Árið 2006 fékk móðir forsjá 149 barna við lögskilnað (25,5%), faðir fékk forsjá 11 barna (1,9%) en 424 börn voru falin sameiginlegri forsjá foreldra (72,6%).

Í frétt nr. 96/2007 á vef Hagstofu Íslands má sjá nánari upplýsingar um forsjá barna úr skilnuðum og sambúðarslitum.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica