18. maí 2016

Forsetakosningar krakkanna

Umboðsmaður barna og KrakkaRÚV hafa sent bréf til allra grunnskóla þar sem leitað er eftir þátttöku grunnskóla í verkefni þar sem börnin kjósa hvaða forsetaframbjóðandi höfðar mest til þeirra.

Umboðsmaður barna og KrakkaRÚV hafa sent bréf til allra grunnskóla þar sem leitað er eftir þátttöku grunnskóla í verkefni þar sem börnin kjósa hvaða forsetaframbjóðandi höfðar mest til þeirra. Er þetta gert til þess að gefa börnum tækifæri á því að láta skoðanir sínar í ljós og vekja þau til umhugsunar um lýðræði og hvernig það virkar.

Bréfið er svohljóðandi:

Til skólastjóra í grunnskólum

Reykjavík, 13. maí 2016

 

Efni: Samstarfsverkefni KrakkaRÚV og umboðsmanns barna, við grunnskóla á Íslandi

Börn eiga rétt á því að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið, en það kemur meðal annars fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Hinn 25. júní 2016 verða haldnar forsetakosningar á Íslandi. Margir einstaklingar hafa lýst því yfir að þeir hyggist gefa kost á sér. KrakkaRÚV og umboðsmaður barna hafa því ákveðið að standa fyrir forsetakosningum barna og gefa börnum þar með tækifæri á því að láta skoðanir sínar á frambjóðendum í ljós.

Stefnt er að því að allir frambjóðendur séu með 60 sekúndu myndband til þess að kynna sig og sína stefnu, ásamt því að kynna svör sín við spurningum frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna. Ætlunin er að myndböndin verði sýnd í skólum, ásamt kynningu á forsetaembættinu. Í framhaldi af því yrði börnum gefið tækifæri á að kjósa sinn frambjóðanda á þar tilbúnum eyðublöðum sem skólunum verður afhent. Á atkvæðaseðlum verða engar persónugreinanlegar upplýsingar og verður aðeins merkt við með einum krossi.

Til stendur að opna vefinn næstu mánaðamót og verða þá myndböndin frumsýnd um leið. Í beinu framhaldi af því myndu kosningarnar fara fram og verða þá opnar í um tvær vikur. Markmiðið er að niðurstöður þessara kosninga verði kynntar í kosningasjónvarpi RÚV á kosninganótt.

Tilgangur þessa bréfs er að óska eftir samstarfi við grunnskóla og biðja þá um að gera ráð fyrir kosningunum í skólastarfinu. Opnað verður fyrir kosningarnar 29. maí næstkomandi og þurfa niðurstöðurnar að hafa borist í síðasta lagi 15. júní næstkomandi.

Ef þörf er á frekari upplýsingum vinsamlegast hafið samband í síma 552-8999.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna og

Sindri Bergmann Þórarinsson, KrakkaRÚV-stjóri

 

               


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica