11. maí 2007

Foreldrar vanmeta höfuðverk barna

Börn fá oftar höfuðverk en foreldrar þeirra telja að því er fram kemur á forskning.no

Börn fá oftar höfuðverk en foreldrar þeirra telja að því er fram kemur á forskning.no. Norskir vísindamenn báðu 2126 skólabörn í Osló á aldrinum 7 til 12 ára að fylla út svokallaða höfuðverkjadagbók. Samhliða voru foreldrarnir beðnir að fylla út sérstakt yfirlit yfir höfuðverk barna sinna.

Niðurstöðurnar sýndu að 57,6 prósent barnanna greindu frá a.m.k. einu höfuðverkjartilfelli á 30 daga tímabili. 56,6 prósent foreldranna greindu hins vegar aðeins frá einu tilfelli á sex mánaða tímabili.

Eins töldu aðeins 6,7 prósent foreldranna að barn sitt fengi reglulega höfuðverk en 14,7 prósent barnanna sögðust fá reglulega höfuðverk.

Af þeim börnum sem fengu höfuðverk reglulega sögðu 10,4 prósent það gerast 7 – 14 daga á 30 daga tímabili. 4,3 prósent sögðust hafa höfuðverk 15 daga í mánuði eða fleiri.
Í ljós kom að feður vanmátu höfuðverk barna sinna meira en mæðurnar. Munurinn á frásögn barnanna og foreldranna reyndist enn fremur vera meiri ef barnið var stúlka. Engu að síður tóku foreldrar frekar eftir höfuðverk hjá stelpum en strákum.

Það er erfitt að gera rannsóknir á höfuðverkjum barna sem ekki kunna að lesa eða skrifa og flestar fyrirliggjandi rannóknir byggja á upplýsingagjöf foreldra eða lækna sem túlka vanlíðan barnanna sem oft vantar orð til að útskýra hvar og hvernig þau finna til. Með því að nota eyðublöð eða form sem samanstanda af táknum gengur ungum börnum betur að útskýra líðan sína.

Taugasérfræðingurinn Christofer Lundqvist telur dagbækur prýðilegt tæki til að fá betri upplýsingar frá börnunum um höfuðverk þeirra. "Þegar barn greinir frá því að það sé með höfuðverk 15 daga í mánuði er ástandið mjög alvarlegt og krónískt. Við þurfum að vera duglegri að hlusta þegar börnin eru að segja okkur frá líðan sinni," segir hann.

 Sjá nánar: Foreldre undervurderer barns hodepine, birt  27.apríl 2007 á www.forskning.no

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica