28. desember 2016

Fjölskyldumiðstöð lokað

Umboðsmaður barna fékk fregnir af því að það stæði til að loka starfsemi Fjölskyldumiðstöðvarinnar sem Rauði krossinn hefur rekið um árabil. Starfsemi miðstöðvarinnar hefur reynst fjölskyldum mikilvægur stuðningur í erfiðum málum og þykir það miður að starfsemi hennar skuli lokið. Umboðsmaður barna sendi því bréf til velfeðarráðuneytisins, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða krossins vegna þess.

Umboðsmaður barna fékk fregnir af því að það stæði til að loka starfsemi Fjölskyldumiðstöðvarinnar sem Rauði krossinn hefur rekið um árabil. Starfsemi miðstöðvarinnar hefur reynst fjölskyldum mikilvægur stuðningur í erfiðum málum og þykir það miður að starfsemi hennar skuli lokið. Umboðsmaður barna sendi því bréf til velfeðarráðuneytisins, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða krossins vegna þess. 

Bréfið er svohljóðandi: 

 

Reykjavík, 19. desember 2016

 

Efni: Fjölskyldumiðstöðin

Fjölskyldan er almennt talin best til þess fallin að hlúa að þroska og uppeldi barna. Endurspeglast það meðal annars í inngangi að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, en þar er viðurkenndur réttur hvers barns til þess að „alast upp innan fjölskyl

du við hamingju, ást og skilning, til þess að persónuleiki þess geti mótast á heilsteyptan og jákvæðan hátt.“ Almennt eru það foreldrar sem bera meginábyrgð á uppeldi og þroska barna og ber þeim að sjá til þess að börnum líði vel innan fjölskyldu sinnar. Samkvæmt Barnasáttmálanum er ríkinu þó skylt að veita foreldrum aðstoð til þess að sinna hlutverki sínu með fullnægjandi hætti, sbr. til dæmis 2. mgr.  18. gr. sáttmálans.

Þegar samskipti eru af einhverjum ástæðum erfið innan fjölskyldunnar getur það skapað mikla togstreitu í lífi barns og haft verulega neikvæð áhrif á líðan þess. Mörg af þeim erindum sem börn senda til umboðsmanns barna varða einmitt samskiptavanda innan fjölskyldunnar og í slíkum málum bendir umboðsmaður gjarnan á þann möguleika að fara í fjölskylduráðgjöf.

Í sumum sveitarfélögum hefur verið í boði ókeypis fjölskylduráðgjöf en ekki öllum. Umboðsmaður barna hefur gagnrýnt þetta og bent á að börnum sé mismunað að þessu leyti eftir búsetu. Það var því afar ánægjulegt að sjá að í þeim drögum að fjölskyldustefnu sem velferðarráðuneytið lagði fram á síðasta ári var eitt af markiðunum að bæta og jafna aðgengi að fjölskylduráðgjöf. Í athugasemdum með tillögunni er meðal annars tekið fram að aðgengi að fjölskylduráðgjöf geti skipt „sköpum ef vandi er fyrir hendi, því að þar er grunnur lagður að andlegu og líkamlegu heilbrigði barnsins.“

Eitt af þeim úrræðum sem hefur verið til fyrirmyndar þegar kemur að fjölskylduráðgjöf er Fjölskyldumiðstöðin, en hún undanfarin ár veitt börnum og fjölskyldum þeirra ókeypis ráðgjöf og aðstoð. Þó að fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu eigi vissulega auðveldara með að nýta sér þjónustu hennar hefur hún verið opin öllum fjölskyldum, óháð búsetu. Umboðsmaður barna vísar börnum, foreldrum og öðrum á þetta úrræði í hverri viku og hefur það reynst mörgum fjölskyldum ómetanleg aðstoð.

Umboðsmaður barna hefur fengið þær fréttir að fyrirhugað sé að leggja niður Fjölskyldumiðstöðina. Er það mikið áhyggjuefni að mati embættisins, enda myndi það hafa afar neikvæð áhrif á börn ef þetta mikilvæga úrræði væri ekki til staðar. Umboðsmaður skorar því á alla þá aðila sem hafa komið að rekstri úrræðisins að endurskoða þá ákvörðun og og leita allra leiða til þess að halda úrræðinu gangandi. Má í því sambandi minna á að við allar ákvarðanir sem varða börn á það sem er börnum fyrir bestu að vera að leiðarljósi, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans.

Opinberir aðilar eiga að tryggja að fjölskyldum standi sú aðstoð sem þær þurfa til þess að velferð barna sé tryggð. Umboðsmaður barna skorar því sérstaklega á velferðarráðuneytið. velferðarsvið Reykjavíkurborgar og aðra opinbera aðila að styrkja Fjölskyldumiðstöðina.

 

 

Virðingarfyllst,

  

______________________________________

Margrét María Sigurðardóttir,

umboðsmaður barna

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica