25. apríl 2007

Fjöldi barna í leikskólum 2006

Hagstofa Íslands hefur gefið út nýjar tölur um fjölda barna í leikskólum í árslok 2006. Í frétt á vefsíðu Hagstofunnar segir að börn í leikskólum hafi aldrei verið fleiri og dvalartími barna í leikskólum lengist stöðugt.

Hagstofa Íslands hefur gefið út nýjar tölur um fjölda barna í leikskólum í árslok 2006.  Í frétt á vefsíðu Hagstofunnar segir að börn í leikskólum hafi aldrei verið fleiri og dvalartími barna í leikskólum lengist stöðugt.

Í desember 2006 sóttu 17.216 börn leikskóla á Íslandi og hafa leikskólabörn aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 352 frá desember 2005 eða um 2,1%. Þetta er töluvert meiri fjölgun en undanfarin ár. Milli áranna 2004 og 2005 var fjölgunin 0,65%. Alls sækja 81% 1-5 ára barna leikskóla, og er hlutfallið 96% í þriggja ára og fjögurra ára aldurshópunum. Í desember 2006 sóttu 91% tveggja ára barna leikskóla og þriðjungur eins árs barna.

Þegar skoðaðar eru tölur aftur til ársins 1998 sést að viðvera barna í leikskólum er stöðugt að lengjast. Hlutfall þeirra barna sem skráð eru í a.m.k. 8 tíma viðveru á dag fer sífellt hækkandi. Árið 1998 voru rúmlega 40% (40,3%) barna í leikskólum skráð í 8 tíma viðveru eða lengur. Fjórum árum síðar er þetta hlutfall komið í rúmlega 60% (61,7%) og árið 2006 eru 75% allra barna í leikskólum skráð í a.m.k. 8 tíma daglega viðveru.

Börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku fjölgar áfram og eru nú 1.333 talsins, eða 7,7% allra leikskólabarna. Algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna er pólska (229 börn) og í öðru sæti er enska (171 börn). Frá árinu 1998 hefur enskumælandi leikskólabörnum fjölgað um 38% en á sama tíma hefur pólskumælandi börnum fjölgað um  487%.

Í desember 2006 nutu 984 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika. Þetta eru 5,7% allra leikskólabarna. 

Nánari upplýsingar og talnaefni í frétt 72/2007 á vefsíðu Hagstofunnar.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica