6. apríl 2006

Fæðingar og frjósemi árið 2005

Árið 2005 fæddust  4.280 börn hér á landi, 2.183 drengir og 2.097 stúlkur.  Árið 2005 var fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu 2,05 og er meðalaldur frumbyrja nú 26 ár.

Árið 2005 fæddust  4.280 börn hér á landi, 2.183 drengir og 2.097 stúlkur. Þetta eru heldur fleiri fæðingar en árið áður, þá fæddust hér 4.234 börn. Algengasti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Árið 2005 mældist frjósemin 2,05 börn á ævi hverrar konu samanborið við 2,03 börn ári fyrr.  

Eins og annars staðar á Vesturlöndum hefur dregið úr frjósemi á Íslandi á undanförnum áratugum.  Lækkuð frjósemi hefur haldist í hendur við hækkaðan meðalaldur mæðra. Á árunum 1966-1970 var meðalaldur frumbyrja aðeins 21,3 ár en er nú 26 ár (2001-2005).   Unglingamæðrum hefur einnig fækkað jafnt og þétt á þessu tímabili.

Aðeins rúmlega þriðjungur barna á Íslandi fæðist innan vébanda hjónabands (34,3%). Þetta hlutfall hefur lækkað lítils háttar frá því í upphafi 10. áratugarins, úr 43,6% 1991. Hlutfall þeirra barna sem fæðast innan óvígðrar sambúðar foreldra hefur aftur á móti haldist stöðugt og er nú 50,8%. Börnum sem fæðast utan skráðrar sambúðar hefur fjölgað hlutfallslega, þau voru um 10,2% allra barna sem fæddust á árabilinu 1991-1995 en eru nú 14,4%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni nr. 51, 6. apríl 2006. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica