20. mars 2007

Fæðingar 2006

Árið 2006 fæddust 4.415 börn hér á landi, 2.258 drengir og 2.157 stúlkur. Þetta eru fleiri fæðingar en árið 2005.

Hagstofa Íslands hefur birt talnaefni um fæðingar og frjósemi á árinu 2006.

Árið 2006 fæddust 4.415 börn hér á landi, 2.258 drengir og 2.157 stúlkur. Þetta eru fleiri fæðingar en árið 2005 en þá fæddust hér 4.280 börn.

Algengasti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Árið 2006 mældist frjósemin 2,07 börn á ævi hverrar konu samanborið við 2,05 börn ári fyrr. Undanfarin áratug hefur frjósemi verið nokkuð stöðug hér á landi, lægst varð hún 1,9.

Í allflestum löndum Evrópu er frjósemi umtalsvert lægri en á Íslandi og verður fólksfjölgun þar einkum vegna streymis aðkomufólks. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins er einungis eitt Evrópuland með meiri frjósemi en Ísland, þ.e. Tyrkland en þar var frjósemi 2,2.

Á 20. öldinni varð frjósemi hér á landi mest undir lok 6. áratugarins en þá voru lifandi fædd börn á ævi hverrar konu um 4,2. Frjósemi minnkaði mjög ört á 7. áratugnum og féll niður fyrir 3 um 1970 og varð lægri en 2 um tveggja ára skeið um miðbik 9. áratugarins. Eftir það hækkaði frjósemi á Íslandi tímabundið en lækkaði aftur í upphafi 10. áratugarins. Sem fyrr segir hefur frjósemin verið fremur stöðug undanfarinn áratug, um 2 börn á ævi hverrar konu.

Lækkuð frjósemi hefur haldist í hendur við hækkaðan meðalaldur mæðra. Á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar var meðalaldur frumbyrja tæplega 22 ár. Eftir það hækkaði meðalaldur frumbyrja ört, var 23,3 árið 1986, 25 ár tíu árum síðar en er nú 26,4 ár. Sífellt fátíðara verður að konur eigi börn áður en þær ná 25 ára aldri.

Á Íslandi fæðast fleiri börn utan hjónabands en í nokkru öðru Evrópuríki. Aðeins rúmlega þriðjungur barna á Íslandi fæðist innan vébanda hjónabands (34,4%). Þetta hlutfall hefur lækkað lítils háttar frá því í upphafi 10. áratugarins, úr 43,6% 1991. Hlutfall þeirra barna sem fæðast innan óvígðrar sambúðar foreldra hefur aftur á móti haldist stöðugt og er nú 51,6%. Börnum sem fæðast utan skráðrar sambúðar hefur fjölgað hlutfallslega, þau voru um 10,2% allra barna sem fæddust á árabilinu 1991-1995 en eru nú 14,1%.

Nánar í frétt nr.52/2007, dags. 20.03.2007 á vef Hagstofu Íslands 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica