22. janúar 2007

Endurskoða þarf 14. gr. útvarpslaga um vernd barna

Umboðsmaður barna, Ingibjörg Rafnar,  hefur sent menntamálanefnd Alþingis bréf þar sem hún bendir á að taka þurfi til endurskoðunar 14. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 um vernd barna gegn óheimilu efni.

Nú er frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000, lög um prentrétt nr. 57/1956 og samkeppnislög nr. 44/2005 (svokallað fjölmiðlafrumvarp) til meðferðar hjá menntamálanefnd Alþingis.  Að því tilefni hefur umboðsmaður barna, Ingibjörg Rafnar, sent menntamálanefnd Alþingis bréf þar sem hún bendir á að taka þurfi til endurskoðunar 14. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 um vernd barna gegn óheimilu efni.

Þegar frumvarp til útvarpslaga var til meðferðar á Alþingi á sínum tíma voru gerðar breytingar á 14. gr. þess þannig að þrjár málsgreinar í 22. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um sjónvarpsrekstur (97/36/EB) voru umorðaðar og þeim steypt í tvær málsgreinar.  Að mati umboðsmanns barna hafði það í för með sér að 14. gr. útvarpslaga stangast í raun á við 22. gr. tilskipunarinnar.

Að mati umboðsmanns barna bannar 14. gr. núgildandi útvarpslaga aðeins að hluta útsendingar þess efnis, sem samkvæmt 1. lið 22. tilskipunarinnar á að vera með öllu óheimilt að senda út og takmarkar ekki með neinum hætti útsendingu annars efnis sem ekki er talið við hæfi barna.  Þegar litið er til framkvæmdar útvarpslaganna og þess hvernig sjónvarpsstöðvar hér á landi raða niður dagskrárefni má augljóst vera að börnum er ekki  búin sú vernd gegn óheimilu efni sem tilskipun 89/552/EBE eins og henni hefur verið breytt með tilskipun 97/36/EB kveður á um og augljóslega var ætlunin með frumvarpi til útvarpslaga þegar það var lagt fram.

Opna bréf umboðsmanns barna til menntamálanefndar Alþingis, dags. 29. desember 2006.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica