10. febrúar 2015

Eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum

Nú eru bráðum 9 ár síðan að lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 tóku gildi og ennþá er ekki búið að tryggja eftirlitið. Umboðsmaður barna hefur sent mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir því að ráðherra upplýsi umboðsmann um það hvernig ráðuneytið hyggst beita sér fyrir því að markmiðum laganna verði náð.

Nú eru bráðum 9 ár síðan að lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 tóku gildi og ennþá er ekki búið að tryggja eftirlitið. Umboðsmaður barna hefur sent mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir því að ráðherra upplýsi umboðsmann um það hvernig ráðuneytið hyggst beita sér fyrir því að markmiðum laganna verði náð.

Bréfið er svohljóðandi:

Illugi Gunnarsson
Mennta- og menningarmálaráðherra
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 1. febrúar  2015 
UB:1502/9.3

 

Efni:  Lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006

Reglulega berast umboðsmanni barna ábendingar sem varða eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum sbr. lög nr. 62/2006. Í 5. gr. laganna kemur fram að Fjölmiðlanefnd hafi eftirlit með lögunum. Síðastliðin ár hefur umboðsmaður barna nokkrum sinnum haft samband við nefndina (og forvera hennar, þ.e. Barnaverndarstofu, í gildistíð eldri laga). Auk þess hefur umboðsmaður fundað með Samtökum myndréttarhafa á Íslandi (SMÁÍS). SMÁÍS var að vinna að innleiðingu samhæfðs eftirlitskerfis sem vonir voru bundnar við að myndi auðvelda eftirlit og auka vernd barna. Eftir gjaldþrot SMÁÍS síðastliðið haust hefur umboðsmaður barna velt fyrir sér hvernig staðan er í þessum málaflokki.

Hinn 16. desember sl. sendi umboðsmaður barna bréf til Fjölmiðlanefndar og óskaði eftir ítarlegum upplýsingum um stöðu þessara mála, en umboðsmaður barna hefur í samræmi við 5. gr. laga um embættið rétt á öllum þeim upplýsingum sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum. Svar frá Fjölmiðlanefnd barst við bréfinu 16. janúar sl. ásamt afritum af tveimur bréfum Fjölmiðlanefndar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dagsettum 30. september og 5. desember 2014.

Þær upplýsingar sem koma fram í bréfum Fjölmiðlanefndar til ráðuneytisins valda umboðsmanni barna miklum áhyggjum. Svo virðst sem verulega vanti upp á að eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum sé viðunandi.

Börn eru berskjölduð fyrir neikvæðum áhrifum myndefnis, s.s. tölvuleikja, kvikmynda og auglýsinga. Slíkt efni getur haft mikil og varanleg áhrif á siðferðisþroska þeirra, sérstaklega þegar það innheldur ofbeldi, klám, neikvæðar staðalímyndir eða jákvæð viðhorf til hluta eða athafna sem teljast skaðleg. Umboðsmaður barna hefur áður vakið athygli ráðuneytisins vegna þessara mála og má nefna bréf sent var þáverandi mennta- og menningamálaráðherra hinn 11. apríl 2011.

Nú eru bráðum 9 ár síðan að lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 tóku gildi og ennþá er ekki búið að tryggja eftirlitið. Í ljósi reynslunnar, hefur umboðsmaður barna efasemdir um að heppilegt sé að láta einkaaðila sem eru  „ábyrgðaraðilar“ skv. lögum nr. 62/2006 bera ábyrgð á því að aldursmat, merkingar og eftirlit séu í lagi. Í bréfum Fjölmiðlanefndar kemur auk þess fram að henni sé ekki ætlað fjármagn til að sinna eftirliti á grundvelli laganna.

Umboðsmaður barna vill ítreka það við ráðherra að honum finnst afar brýnt að ráðuneytið finni varanlega lausn á þessu máli  sem fyrst. Það er óásættanlegt að  lögum sem sett eru í þeim tilgangi að vernda börn sé ekki fylgt í framkvæmd. Það er engan veginn í samræmi við réttindi barna og skuldbindingar ríkisins skv. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ef ráðherra telur nauðsynlegt að endurskoða lögin ætti að gera það sem allra fyrst.

Umboðsmaður óskar eftir því að ráðherra upplýsi umboðsmann um það hvernig ráðuneytið hyggst beita sér fyrir því að markmiðum laga nr. 62/2006 verði náð.

Ennfremur er óskað eftir öðrum upplýsingum sem máli kunna að skipta í þessu sambandi.

Virðingarfyllst,

_____________________________

Margrét María Sigurðardóttir, 
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica