20. ágúst 2015

Drög að mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar

Umboðsmaður barna fékk tækifæri til þess að skila umsögn um drög að mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Umsögn sína veitt umboðsmaður með tölvupósti dags. 19. ágúst 2015.

Umboðsmaður barna fékk tækifæri til þess að skila umsögn um drög að mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.  Umsögn sína veitt umboðsmaður með tölvupósti dags. 19. ágúst 2015. 

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Endurskoðunarhópur mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar

Reykjavík, 19. ágúst 2015
UB: 1508/4.1.3

Efni: Drög að mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar

Vísað er í tölvupóst, dags. 7. ágúst sl., þar sem óskað er eftir athugasemdum um drög að mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Umboðsmaður barna þakkar fyrir að fá tækifæri til þess að fara yfir drögin. Umboðsmaður hefur ekki tök á því að fjalla um einstaka þætti eða hópa barna en vill koma eftirfarandi ábendingum á framfæri.

Sérstaða barna

Umboðsmaður barna fagnar því að fjallað sé um réttindi barna í kafla 3 um aldur. Hann hefði þó gjarnan viljað sjá sérstakan kafla í stefnunni sem fjallar einungis um réttindi barna. Í slíkum kafla væri hægt að vísa til þess að í öllu starfi Reykjavíkurborgar ætti að taka sérstakt mið af ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Börn eru viðkvæmur hópur sem þarfnast sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Jafnframt eru börn þó fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Ef þau fá þann stuðning sem þau þurfa og tækifæri til þess að vera virkir þátttakendur í samfélaginu skilar það sér margfalt til baka til samfélagsins. Með því að hafa sérstakan kafla um börn er hægt að taka tillit til sérstöðu barna og stuðla að breyttu viðhorfi til réttinda þeirra.

Þátttaka

Það er sérstaklega jákvætt að í upphafi kafla 3 sé fjallað um að það sem er börnum fyrir bestu skuli hafa forgang við allar ákvarðanir sem varða börn og að börn eigi að njóta sérstakrar umönnunar og verndar. Umboðsmaður saknar þess þó að tekið sé fram að börn eigi rétt á því að hafa áhrif að allar ákvarðanir sem varða þau sjálf, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. Á það við jafnvel þó síðar í kaflanum sé vísað til þess að tekið skuli mið af viðhorfum barna þegar teknar eru ákvarðanir, sbr. liður 3.12 og 3.13. Til samanburðar má benda á að í almenna textanum er sérstaklega vísað til samráðs við eldri borgara. Umboðsmaður barna telur fulla ástæðu til að taka með sama hætti fram að hafa skuli samráð við börn og ungmenni áður en teknar eru ákvarðanir sem varða þau með einum eða öðrum hætti. Á það ekki síst við í ljósi þess að ríkið og sveitarfélög, þar á meðal Reykjavíkurborg, hafa í gegnum tíðina margoft tekið mikilvægar ákvarðanir sem varða börn án þess að leita eftir viðhorfum þeirra sjálfra, t.d. við ákvarðanir um sameiningar skóla.

Umboðsmaður barna vill undirstrika að stjórnvöld og aðrir sem taka ákvarðanir sem varða börn geta ekki ákveðið hvað er börnum fyrir bestu ef börnin sjálf hafa ekki fengið tækifæri til þess að tjá sig um málið. Það þarf því markvisst að vinna að því að breyta viðhorfum og verkferlum í átt að nýjum skilningi á réttindum barna. Í fyrstu getur það verið stór áskorun að upplýsa og hafa samráð við börn á mismunandi aldri en umboðsmaður telur að með tímanum hafi það mikinn ávinning í för með sér fyrir stjórnsýslu borgarinnar og síðast en ekki síst börnin í borginni.

Reykjavíkurborg hefur að mörgu leyti verið leiðandi á undanförnum árum þegar kemur að þátttöku barna og ungmenna og er mikilvægt að ýta enn frekar undir þá þróun í mannréttindastefnu borgarinnar. Þar sem lýðræði er ein af grunnstoðum skólastarfs samkvæmt Aðalnámskrá þá væri tilvalið að efla samstarf við skóla, nemendafélög og börn í frístundastarfi til þess að hægt verði að leita eftir viðhorfum barna á öllum aldri og þjálfa börnin í lýðræðislegri þátttöku. Ungmennaráð borgarinnar hafa vissulega verið öflug og reynst vel og því væri kjörið tækifæri að nýta þau meira þegar kemur að stórum ákvörðunum sem hafa áhrif á börn eða afmarkaða hópa barna.

Barnvæn borg

Til þess að börn geti nýtt sér þá þjónustu sem Reykjavíkurborg býður upp á er mikilvægt að þau geti nálgast upplýsingar sem hæfa aldri þeirra og þroska, t.d. með gagnvirkum hætti á netinu. Þá skiptir miklu máli að bjóða upp á umhverfi sem tekur mið af þörfum barna. Umboðsmaður hefur áhyggjur af því að börn sem vilja eða þurfa að leita sjálf eftir aðstoð borgarinnar, t.d. hjá barnavernd, eigi ekki nógu greiðan aðgang að starfsfólki. Umboðsmaður barna telur því ástæðu til að taka það fram í mannréttindastefnunni að stjórnsýsla og þjónusta Reykjavíkurborgar skuli vera barnvæn og að taka skuli mið af þörfum barna á öllum aldri. Má til hliðsjónar benda á Tilmæli Ráðherranefndar Evrópuráðsins um réttindi barna og barnvæna félagsþjónustu við börn og fjölskyldur, sem má nálgast hér á vef velferðarráðuneytisins. 

 

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica