10. júní 2014

Drög að frumvarpi til laga um Straumhvörf – sérhæfða þjónustumiðstöð

Vegna ábendinga og umfjöllunar á heimasíðu velferðarráðuneytisins ákvað umboðsmaður barna að óska eftir upplýsingum um fyrirhugaða sameiningu nokkurra stofnana í eina sérhæfða þjónustumiðstöð fyrir fatlað fólk. Hinn 28. maí 2014 fékk umboðsmaður send frumvarpsdrög um Straumhvörf - sérhæfða þjónustumiðstöð, ásamt skýrslu verkefnisstjórnar um faglegan og fjárhagslegan ávinning af umræddri sameiningu. Umsögn sína sendi umboðsmaður barna með bréfi dags. 10. júní 2014.

Vegna ábendinga og umfjöllunar á heimasíðu velferðarráðuneytisins ákvað umboðsmaður barna að óska eftir upplýsingum um fyrirhugaða sameiningu nokkurra stofnana í eina sérhæfða þjónustumiðstöð fyrir fatlað fólk. Hinn 28. maí 2014 fékk umboðsmaður send frumvarpsdrög um Straumhvörf - sérhæfða þjónustumiðstöð, ásamt skýrslu verkefnisstjórnar um faglegan og fjárhagslegan ávinning af umræddri sameiningu. Umsögn sína sendi umboðsmaður barna með bréfi dags. 10. júní 2014.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarráðuneytið
b.t. Bolla Þórs Bollasonar
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
101 Reykjavík           

 

Reykjavík, 10. júní 2014 

Efni: Drög að frumvarpi til laga um Straumhvörf – sérhæfða þjónustumiðstöð

Vegna ábendinga frá nokkrum aðilum sem og umfjöllunar á heimasíðu velferðarráðuneytisins ákvað umboðsmaður barna að óska eftir nánari upplýsingum um fyrirhugaða sameiningu nokkurra stofnana í eina sérhæfða þjónustumiðstöð fyrir fatlað fólk. Í tölvupósti, dags. 28. maí sl., fékk umboðsmaður send ofangreind frumvarpsdrög, ásamt skýrslu verkefnisstjórnar um faglegan og fjárhagslegan ávinning af umræddri sameiningu. Umboðsmaður barna þakkar fyrir skjót viðbrögð.

Er sameiningin börnum fyrir bestu?

Í niðurstöðu greiningar verkefnisstjórnar og í athugasemdum með ofangreindum drögum kemur m.a. fram að sameining umræddra stofnana geti stuðlað að markvissari og betri þjónustu. Umboðsmaður barna fagnar allri viðleitni til þess að styrkja og bæta þjónustu við fólk með fötlun. Hann hefur þó áhyggjur af því að ekki hafi verið nægilega hugað að sérstöðu barna í þeirri vinnu sem farið hefur fram.

Ljóst er að sameining Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands mun hafa töluverð áhrif á þjónustu við börn. Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, á það sem er börnum fyrir bestu að hafa forgang við allar ákvarðanir sem varða börn. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur talið umrætt ákvæði leggja þá skyldu á yfirvöld að meta það sérstaklega hvaða áhrif fyrirhugaðar ákvarðanir munu hafa á börn (e. child-impact assessment). Af fyrrnefndri skýrslu verkefnisstjórnar og athugasemdum með frumvarpsdrögunum verður ekki séð að slíkt mat hafi farið fram. Þar kemur þó fram að leitast hafi verið við að hafa samráð við þá aðila sem ættu hagsmuna að gæta við sameininguna. Umboðsmaður barna saknar þess að hafa ekki verið í þeim hópi.

Eins og staðan er í dag fá því miður sumir hópar barna með sérþarfir ekki þjónustu við hæfi, auk þess sem bið eftir þjónustu er oftar en ekki mjög löng. Má í því sambandi benda á að samkvæmt svarbréfi Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar til umboðsmanns barna frá 3. júní 2013 „vantar mikið upp á að þjónusta fyrir börn með þroska- og hegðunarraskanir sé fullnægjandi, bæði hvað varðar framboð þjónustunnar og innihald.“ Þá hefur stöðin þurft að þrengja verksvið sitt vegna skorts á fjármagni og sinnir hún nú ekki ákveðnum hópi barna sem hún sinnti áður. Ef hlutverk stofnunarinnar verður útvíkkað þannig að hún sinni einnig fullorðnum er ljóst að auka þarf fjárveitingar verulega.

Umboðsmaður barna skorar á velferðarráðuneytið að tryggja öllum börnum með þroska- og hegðunarraskanir þá þjónustu sem þau þurfa og eiga rétt á. Þá er brýnt að ráðuneytið virði skyldur sínar samkvæmt Barnasáttmálanum og framkvæmi sérstakt mat á því hvaða áhrif fyrirhuguð sameining muni hafa á þjónustu við börn. Áður en endanleg ákvörðun er tekin um sameininguna þarf að ganga úr skugga um að hún sé raunverulega börnum fyrir bestu og verði til þess að öll börn fái greiningu, ráðgjöf og þjónustu við hæfi.

Athugasemdir við frumvarpsdrögin

Ef ákveðið verður að sameina ofangreindar stofnanir er brýnt að huga að sérstöðu barna og tryggja börnum besta mögulega þjónusta sem völ er á, enda er það í samræmi við íslenska lög sem og alþjóðlegar skuldbindingar. Umboðsmaður barna telur það ekki hafa verið nægilega gert í frumvarpsdrögunum. Þvert á móti virðast börn fá takmarkað vægi í drögunum og til marks um það má benda á að hugtakið barn eða börn kemur þar hvergi fyrir. Þá virðist einungis vísað til barna á þremur stöðum, þ.e. varðandi miðlun upplýsinga til forsjáraðila, snemmtæka íhlutun og svo loks varðandi gjaldfrjálsa þjónustu til einstaklinga undir 18 ára aldri. Þar að auki er vísað til þess í ákvæði til bráðabirgða að þjónusta miðstöðvarinnar við fullorðna einstaklinga með einhverfu og alvarlegar þroskaraskanir skuli koma til í þrepum. Umboðsmaður barna hefði viljað sjá ákvæði í drögunum um börn, þar sem meðal annars væri tekið mið af réttindum barna samkvæmt Barnasáttmálanum.

Þar sem börn eru enn að þroskast þurfa þau á annars konar og meiri þjónustu að halda en fullorðnir. Þetta endurspeglast meðal annars í Barnasáttmálanum, þar sem fram kemur að börn eigi rétt á þeim stuðningi og þjónustu sem þau þurfa til þess að ná sem bestum andlegum og líkamlegum þroska, sbr. meðal annars 6. og 23. gr. sáttmálans. Í frumvarpsdrögunum er nánast ekkert vikið að þroska barna. Þannig er til að mynda í 1. gr. draganna, þar sem fjallað er um markmið og hlutverk þjónustumiðstöðvarinnar, ekki vikið að börnum með þroskaraskanir og mikilvægi þess að tryggja þeim þá þjónustu sem þau þurfa, þó tekið sé fram að hlutverkið nái m.a. til þroskaskerðingar almennt.

Umboðsmaður barna fagnar því að kveðið sé á um mikilvægi þess að grípa tímanlega inn í ef grunur vaknar um fötlun, sbr. 6. gr. draganna. Það er þó full ástæða til þess að fjalla enn betur um rétt barna til þess að fá þá þjónustu sem þau þurfa eins fljótt og hægt er, enda getur snemmtæk íhlutun skipt miklu máli fyrir þroska og líðan barna.

Í upphaflegum drögum virðist hafa verið gert ráð fyrir möguleika á samvinnu við leik- og grunnskóla, en það hefur verið strikað út, sbr. 9. gr. draganna. Ef ein sameinuð þjónustumiðstöð fyrir fatlað fólk verður að veruleika telur umboðsmaður barna brýnt að hún hafi það hlutverk að vera í samstarfi við leik-, grunn- og framhaldsskóla varðandi þann stuðning sem nauðsynlegt er að veita börnum. Þá væri einnig full ástæða til þess að kveða sérstaklega á um samvinnu stofnunarinnar við heilbrigðisstofnanir fyrir börn. Í framkvæmd virðist því miður of oft koma upp sú staða að börn falla á milli kerfa og er nauðsynlegt að tryggja að stofnanir sem koma að málefnum barna með sérþarfir vinni saman og finni þá lausn sem hentar best hverju sinni.

Að lokum má benda á að í 13. tölul. 3. gr. væri réttara er að nota hugtakið forsjáraðilar en forráðamenn, sbr. hugtakanotkun barnalaga nr. 76/2003.

Umboðsmaður barna óskar eftir því að fá að fylgjast með þróun mála og fá tækifæri til að koma með frekari athugasemdir síðar.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica