23. september 2014

Drög að frumvarpi til laga um fullnustu refsinga

Innanríkisráðuneytið óskaði eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um fullnustu refsinga í frétt á vef ráðuneytisins dags. 5. september 2014. Umboðsmaður barna sendi ráðuneytinu umsögn með tölvupósti dags. 23. september 2014.

Innanríkisráðuneytið óskaði eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um fullnustu refsinga í frétt á vef ráðuneytisins dags. 5. september 2014Umboðsmaður barna sendi ráðuneytinu umsögn með tölvupósti dags. 23. september 2014.

Umsögn umboðsmanns barna

UB:1105/4.1.1

Efni: Drög að frumvarpi til laga um fullnustu refsinga

Vísað er í frétt á heimasíðu ráðuneytisins, dags. 5. september sl., þar sem óskað er eftir umsögnum um ofangreind drög. Vegna anna hefur umboðsmaður barna ekki haft tök á því að fara yfir frumvarpið í heild sinni. Gerir hann ráð fyrir að fá tækifæri til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum. 

Í 45. gr. frumvarpsins er fjallað um vistun fanga yngri en 18 ára. Ákvæðið er samhljóða 4. mgr. 14. gr. núgildandi laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005. Umrætt ákvæði kom inn í lögin þegar Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur, sbr. 4. gr. laga nr. 19/2013. Eins og umboðsmaður barna benti á í umsögn sinni um það frumvarp telur hann orðalag ákvæðisins ekki í samræmi við skyldur ríkisins samkvæmt b-lið 37. gr. Barnasáttmálans. Í ákvæðinu kemur fram að vista skuli fanga undir 18 ára aldri á heimilum á vegum barnaverndaryfirvalda, nema „sérstakar ástæður“ séu til að vista þá í fangelsi. Í fyrrnefndu ákvæði Barnasáttmálans kemur hins vegar fram að halda skulu hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að það sé því fyrir bestu að gera það ekki. Umboðsmaður barna telur brýnt að endurskoða orðalag 45. gr. frumvarpsins og kveða á um að vista skuli fanga undir 18 ára aldri á heimilum á vegum barnaverndaryfirvalda, nema annað sé ótvírætt talið þeim fyrir bestu.

Í þessu sambandi telur umboðsmaður barna einnig rétt að ítreka þær miklu áhyggjur sem hann hefur af því úrræðaleysi sem ríkir í málefnum barna sem grunuð er um eða hafa verið dæmd fyrir afbrot. Hefur hann margoft bent á nauðsyn þess að koma á fót nýju meðferðarheimili fyrir fanga undir 18 ára aldri, sem tekur mið af þörfum barna og til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra. Þetta úrræðaleysi kom vel í ljós fyrr á þessu ári þegar fjögur börn voru í gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni, en umboðsmaður barna vakti athygli félags- og innanríkismálaráðherra á því að hann teldi það ekki í samræmi við réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmálanum.

Í 12. gr. er lögð til sú breyting að starfsmenn á heimilum á vegum barnaverndaryfirvalda sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa, enda hafi þeir hlotið viðeigandi þjálfun. Umboðsmaður barna hefur skilning á því að í ákveðnum tilvikum sé nauðsynlegt að nota líkamlegt inngrip til þess að tryggja að barn stefni sjálfum sér eða öðrum ekki í hættu. Á sama tíma er þó brýnt að hafa í huga að öll börn eiga rétt á sérstakri vernd, óháð því hvort þau hafi brotið af sér eða ekki. Þó að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar eigi að sjálfsögðu við um valdbeitingar af þessu tagi telur umboðsmaður engu að síður ástæðu til að árétta það sérstaklega í ákvæðinu sjálfu að einungis skuli beita börn líkamlegu inngripi í ítrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir dugi ekki til að forða barni frá því að skaða sig og/eða aðra eða til að koma í veg fyrir meiriháttar eignatjón. Væri til dæmis hægt að hafa hliðsjón af orðalagi 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, sem fjallar um líkamlegt inngrip í mál nemenda.

Að lokum vill umboðsmaður barna benda á að í skýrslu sinni til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2010 fjallaði hann um ýmis atriði sem varða þennan málaflokk, þar á meðal um heimsóknir barna í fangelsi, sérstök skilyrði á reynslutíma og samvinnu fangelsismálayfirvalda og barnaverndaryfirvalda. Sjá sérstaklega bls. 8 og 14-15 í meðfylgjandi skýrslu.

Virðingarfyllst, 

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica