4. október 2010

Drög að almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vakti í ágúst athygli á að drög að almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla væru aðgengileg á vef ráðuneytisins. Umboðsmaður barna veitti umsögn sína í tölvupósti dags. 4. október 2010.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vakti í ágúst athygli á að drög að almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla væru aðgengileg á vef ráðuneytisins. Umboðsmaður barna veitti umsögn sína í tölvupósti dags. 4. október 2010.

Sjá drög að almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla.

Umsögn umboðsmanns barna

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. október 2010
Tilvísun: UB 1010/4.1.1

Efni: Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti

Vísað er til bréfs frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dagsett 18. ágúst 2010, þar sem vakin er athygli á nýútkomnum drögum að almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla. Umboðsmaður barna hefur ekki sérþekkingu á námskrárgerð en vill koma með eftirfarandi ábendingar varðandi drögin.

Umboðsmaður barna fagnar því að verið sé að endurskoða aðalnámskrá grunnskóla. Umboðamaður vill sérstaklega lýsa ánægju sinni með að lögð sé áhersla á þátttöku nemenda, borgaravitund og mannréttindi. Í námskránni kemur ágætlega fram nauðsyn þess að grunnskóli búi að góðum skólabrag sem er í eðli sínu mikilvægt forvarnarstarf meðal annars með tilliti til eineltis.

Í niðurstöðum skýrslu umboðsmanns barna um líðan barna frá 2010 kemur meðal annars fram að tæplega 15% nemenda upplifa sig aldrei eða sjaldan örugga hvort sem um er að ræða á skólalóðinni eða í skólastofunni. Umboðsmaður barna tekur því undir að skólinn eigi að vera griðastaður barna þar sem þau njóta bernskunnar.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að gert sé ráð fyrir að samhæfð eineltisáætlun sé fyrir hendi í grunnskólum og að hún skuli vera vel kynnt nemendum, starfsfólki og foreldrum. Umboðsmaður fær þó reglulega ábendingar um að eineltisáætlanir í skólum séu ekki nægilega virkar og ekki sé nægjanlega unnið eftir þeim. Í því sambandi telur undirrituð að aðalnámskrá þurfi að kveða enn skýrar á um það hvernig skólar eigi að framfylgja eineltisáætlun sinni svo að hún skili tilætluðum árangri, til dæmis með tilliti til reglulegra kynninga og markvissrar umræðu.

Í drögunum er talað um foreldrasamstarf og nýtingu nærumhverfis í skólastarfi. Slíkt getur haft ýmsar jákvæðar hliðar þar sem það er staðreynd að gott samstarf heimila og skóla skiptir miklu máli fyrir nám og velferð nemenda. Heimsóknir í samtök, stofnanir og samstarf við fagfólk á ýmsum sviðum getur einnig gefið mikið af sér. Umboðsmaður barna telur þó að það geti verið vandasamt í framkvæmd ef foreldrum er ætlað að starfa beinlínis innan skólanna. Bæði getur verið erfitt að gera sömu kröfur um fagmennsku og gert er til starfsfólks skóla og einnig er það erfitt í framkvæmd með tilliti til persónuverndarsjónarmiða nemenda og fleira.

Ekki er tekið á neytendavernd barna í drögum að almennum hluta aðalnámskrá. Flestir geta verið sammála um nauðsyn þess að börn og unglingar fái frið fyrir áreiti markaðarins innan veggja skólans. Undirrituð telur æskilegt að í almennum hluta aðalnámskrár sé kveðið á um að öll markaðssókn gegn börnum sé óheimil innan grunnskólanna. Leiðbeiningar um aukna neytendavernd barna sem umboðsmaður barna og talsmaður neytenda gáfu út árið 2009 má finna á vefsíðu umboðsmanns barna. 

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica