2. febrúar 2010

Degi leikskólans fagnað á föstudaginn

Þann 6. febrúar n.k. er dagur leikskólans. Allir sem koma að málefnum leikskólans á einn eða annan hátt eru hvattir til að halda degi leikskólans á lofti.

Þann 6. febrúar n.k. er dagur leikskólans, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Þetta er þriðja árið í röð sem leikskólar halda daginn hátíðlegan.

Daginn ber að þessu sinni upp á laugardag og því er mælst til þess að honum verði fagnað í leikskólum föstudaginn 5. febrúar. Leikskólakennarar munu þennan sama dag fagna 60 ára afmæli félagsins m.a. með útgáfu veglegs afmælisrits.

Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, mennta-og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfið út á við.

Leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskólanna, hafa á undanförnum árum, ásamt nemendum sínum gert daginn eftirminnilegan á margan hátt. Í fyrra var, svo dæmi séu tekin farið í „meðmælagöngur“, foreldrum og velunnurum boðið í morgunmat og kaffi, vasaljós notuð til að varpa ljósi á barnið, haldnar myndlistar-og leiksýningar og mikið sungið eins og venja er í leikskólum. Leikskólakennarar eru sammála um að dagurinn sé í alla staði skemmtileg tilbreyting og ákjósanleg leið til halda á lofti góðu starfi leikskólanna.

Allir sem koma að málefnum leikskólans á einn eða annan hátt eru hvattir til að halda degi leikskólans á lofti. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica