5. október 2007

Dagur barnsins síðasti sunnudagur í maí

Ríkisstjórnin samþykkti 2. október sl. tillögu félagsmálaráðherra um að sérstakur dagur verði helgaður börnum hér á landi. Lagt er til að dagur barnsins verði síðasti sunnudagur í maí ár hvert, í fyrsta sinn árið 2008.
Ríkisstjórnin samþykkti 2. október sl. tillögu félagsmálaráðherra um að sérstakur dagur verði helgaður börnum hér á landi. Lagt er til að dagur barnsins verði síðasti sunnudagur í maí ár hvert, í fyrsta sinn árið 2008. Beri daginn upp á hvítasunnudag skal dagur barnsins vera næsti sunnudagur á undan hvítasunnudegi. Þessi tími er meðal annars  talinn æskilegur þar sem framundan eru skólalok og upphaf sumarfría. Víða um heim hefur dagur barnsins verið haldinn hátíðlegur 1. júní ár hvert, fyrst árið 1925. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar frá árinu 1954 helgað 20. nóvember alþjóðlegum degi barna, „Universal Children's Day“.
 
Félagsmálaráðuneytið mun nú hefja frekari undirbúning fyrir formlega skráningu dags barnsins á Íslandi í Almanak Háskóla Íslands þannig að dagur barnsins verði fyrst haldinn hátíðlegur á Íslandi sunnudaginn 25. maí árið 2008. Samráðshópur um aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna mun árlega gera tillögu til félagsmálaráðherra um áherslur á degi barnsins hvert ár og hópurinn mun jafnframt gera tillögu til ráðherra um veitingu árlegra viðurkenninga til þeirra sem hafa unnið í þágu barna hér á landi eða skarað hafa fram úr á einhvern hátt.
 

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica