23. maí 2014

Dagur barnsins er á sunnudaginn

Umboðsmaður barna vekur athygli á að síðasti sunnudagurinn í maí er helgaður börnum á Íslandi. Á „degi barnsins" er tilvalið fyrir uppalendur að leggja aðrar skyldur til hliðar ef mögulegt er og njóta samveru með börnunum. Þá er mikilvægt að hlusta á skoðanir þeirra og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif á það hvað fjölskyldan gerir saman. Samvera á ekki að þurfa að kosta peninga því besta minning barns getur verið tengd því þegar öll fjölskyldan spilaði saman, fór saman í gönguferð, hjólaferð eða þegar hún bakaði saman.

Aðstæður barna í samfélaginu eru mismunandi en börn eiga alltaf að geta notið þess að vera börn og eiga góða stundir með þeim sem standa þeim næst. Dagur barnsins snýst fyrst og fremst um að setja börnin í heiðurssæti og eiga með þeim góða samveru. Umboðsmaður barna hvetur því foreldra og aðra sem hafa börn í umsjá sinni að tileinka þennan dag sérstaklega börnunum.

Árið 2007 samþykkti þáverandi ríkisstjórn að síðasti sunnudagur í maí ár hvert yrði helgaður börnum hér á landi. Beri daginn upp á hvítasunnudag skal dagur barnsins vera sunnudagurinn á undan hvítasunnudegi. Fyrsti dagur barnsins var 25. maí 2008 og í ár vill svo skemmtilega til að hann lendir einmitt á þeirri dagsetningu eða 25. maí nk.

 Leikur


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica