27. maí 2011

Dagur barnsins er á sunnudaginn

Á degi barnsins er tilvalið fyrir uppalendur að leggja aðrar skyldur til hliðar ef mögulegt er og njóta samveru með börnunum. Börnin hafa oft einfaldar og góðar hugmyndir af því hvað þeim finnst skemmtilegast að gera með fjölskyldunni.

Í október 2007 samþykkti ríkisstjórnin að síðasti sunnudagur í maí ár hvert væri helgaður börnum hér á landi.  Beri daginn upp á hvítasunnudag skal dagur barnsins þó vera sunnudagurinn á undan hvítasunnudegi. Fyrsti dagur barnsins var 25. maí 2008 og í ár er hann haldinn þann 29. maí. Engin formleg dagskrá er í boði á vegum sveitarfélaga eða annarra stjórnvalda en þess í stað hvetur umboðsmaður barna foreldra og aðra sem hafa börn í umsjá sinni til að tileinka þennan dag sérstaklega börnunum. 

Í frétt sem birtist á vef velferðarráðuneytisins 2. október 2007 kemur fram að mikilvægt sé að tryggja að dagur barnsins sé hvatning til samveru foreldra með börnum sínum og endurspegli áherslur á fjölskylduvænt samfélag.

Í verkefni umboðsmanns barna „Hvernig er að vera barn á Íslandi?“ kemur vel í ljós hve samvera með fjölskyldunni skiptir þau miklu máli. Fjölskyldur barna geta verið mismunandi og margir geta komið að lífi barns. En sama hver fjölskyldugerðin er þá er ráða foreldrar og fjölskylda langmestu um það hvernig barnið upplifir sig og hvernig það sér framtíð sína. Foreldrar sem eru góð fyrirmynd, leiðbeina börnum sínum, hvetja þau og styðja geta haft mikil og jákvæð áhrif á sjálfsmynd barnanna. Þá getur notaleg samvera með góðum fyrirmyndum haft mikið forvarnargildi, sérstaklega þegar börn komast á unglingsaldur.

Á degi barnsins er tilvalið fyrir uppalendur að leggja aðrar skyldur til hliðar ef mögulegt er og njóta samveru með börnunum. Samvera á ekki að þurfa að kosta pening. Börnin hafa oft einfaldar og góðar hugmyndir af því hvað þeim finnst skemmtilegast að gera með fjölskyldunni. Er því mikilvægt að hlusta á skoðanir þeirra og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif á það hvað fjölskyldan gerir saman. Besta minning barns er ekki endilega dagurinn þegar farið var í kvikmyndahús, ísbúð og endað á veitingahúsi. Besta minningin getur verið tengd því þegar öll fjölskyldan spilaði saman, fór saman í gönguferð í náttúrunni með teppi og nesti eða þegar hún bakaði brauðbollur saman.

Aðstæður barna í samfélaginu eru mismunandi sem og fjölskylduaðstæður en börn eiga alltaf að geta notið þess að vera börn og eiga góða stundir með þeim sem standa þeim næst. Dagur barnsins snýst fyrst og fremst um að setja börnin í heiðurssæti og eiga með þeim góða samveru.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica