27. ágúst 2013

Busavígslur

Umboðsmaður barna hefur það hlutverk að gæta að réttindum og hagsmunum barna og vekja athygli á þeim. Umboðsmaður barna hefur því gagnrýnt busavígslur sem ganga út á það að gera lítið úr nemendum eða beita þá andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi.

Umboðsmaður barna hefur það hlutverk að gæta að réttindum og hagsmunum barna og vekja athygli á þeim. Umboðsmaður barna hefur því gagnrýnt busavígslur sem ganga út á það að gera lítið úr nemendum eða beita þá andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi.

Haustin 2010 og  2011 sendi umboðsmaður skólastjórnendum og formönnum nemendafélaga framhaldsskólanna bréf þar sem hann hvatti þá til þess að tryggja vernd nemenda og sjá til þess þeir væru boðnir velkomnir í skólann með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.

Bréf umboðsmanns barna var svohljóðandi:

Til skólastjórnenda og formanna nemendafélaga framhaldsskólanna

Reykjavík 15. ágúst 2011

Efni: Busavígslur nýnema

Á undanförnum árum hafa umboðsmanni barna borist athugasemdir um framkvæmd busavígslna í framhaldsskólum landsins. Oftast fara busavígslurnar vel fram en í undantekningartilfellum virðast þessar innvígsluathafnir fara úr böndunum og hafa embættinu borist ábendingar um vanvirðandi meðferð nýnema við busavígslur þar sem þeir eru niðurlægðir á ýmsan hátt og jafnvel beittir líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi.

Nemar eru börn þar til þeir ná átján ára aldri og eiga því rétt á þeirri vernd sem velferð þeirra krefst. Margir eru óöruggir við upphaf skólagöngu í nýjum skóla og því er tilvalið að nota busadaginn til þess að bjóða nýja nemendur velkomna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Með þessu bréfi vill umboðsmaður barna hvetja skólastjórnendur og nemendafélög framhaldsskólanna til þess að taka tillit til þessara ábendinga og sjá til þess að komið sé fram við nýnema af virðingu og tryggja að öryggis þeirra sé gætt við busavígslur.

Loks óskar umboðsmaður barna ykkur velfarnaðar á komandi skólaári og bendir á að öllum er velkomið að leita til embættisins til að fá upplýsingar og ráðgjöf um réttinda- og hagsmunamál barna.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir
umboðsmaður barna



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica