20. mars 2007

Breytingar á lagaákvæðum um kynferðisbrot

Frumvarp til laga um breytingu á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga var samþykkt á Alþingi s.l. laugardag.   Því ber að fagna enda fela breytingarnar í sér aukna réttarvernd fyrir börn gegn kynferðisbrotum.
Frumvarp til laga um breytingu á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga var samþykkt á Alþingi s.l. laugardag.   Því ber að fagna enda fela breytingarnar í sér aukna réttarvernd fyrir börn gegn kynferðisbrotum.
 
Helstu breytingarnar eru þessar:
 
Sök vegna alvarlegustu kynferðisbrota gegn börnum fyrnist ekki. Með þessari breytingu  eru slík brot sett í sama flokk og þau brot sem geta varðað ævilöngu fangelsi, svo sem manndráp, landráð, hryðjuverk og barnsrán.
 
Fyrningarfrestur annarra kynferðisbrota en þeirra alvarlegustu byrjar ekki að líða fyrr en frá þeim degi er  brotaþoli nær 18 ára aldri í stað 14 ára eins og áður var. Lengd fyrningarfrests fer síðan eftir því hve þung hámarksrefsing liggur við broti.
 
Kynferðislegur lágmarksaldur er hækkaður úr 14 árum í  15 ár.   Lagt er fortakslaust bann við kynmökum við börn yngri en 15 ára. Tilgangurinn með þessu ákvæði hegningarlaga er   sá að veita börnum vernd gegn kynferðislegri misnotkun sér eldri og reyndari einstaklinga en ekki að leggja refsingu við kynferðismökum jafnaldra því frumvarpið fól einnig í sér þá breytingu að  lækka má refsingu eða láta hana niður falla ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.
 
Skilgreining á hugtakinu nauðgun er rýmkuð verulega. Gert er  ráð fyrir því að önnur kynferðisnauðung og misnotkun á bágu andlegu ástandi og því að þolandi getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans teljist nauðgun.
 
Refsimörk fyrir samræði og önnur kynferðismök við börn yngri en 15 ára eru hækkuð þannig að nú liggur sama refsing við þeim brotum og liggur við nauðgun, þ.e. fangelsi ekki skemur en 1 ár og  allt að 16 árum.  Hvort tveggja er að refsihámarkið er hækkað í 16 ár og lögfest er sérstakt refsilágmark, 1 árs fangelsi ( í stað fangelsis í 30 daga og allt að 12 árum eins og áður var). Með þessu er lögð áhersla á alvarleika þessara brota þegar þau beinast að börnum og teljast því nauðgun og kynmök við barn undir 15 ára aldri alvarlegustu kynferðisbrotin.
 
Refsihámark fyrir kynferðislega áreitni gagnvart börnum er hækkað um 2 ár.
 
Lögfest er ákvæði um nokkur atriði sem virða skuli til þyngingar við ákvörðun refsingar fyrir nauðgun, m.a. ef þolandi er barn yngra en 18 ára.
 
Lögfest er ákvæði um ítrekunarheimild um kynferðisbrot þannig að fyrri dómur fyrir kynferðisbrot getur leitt til refsihækkunar.
 
Almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni er lögfest  þar sem hugtakið er skilgreint betur en áður en samkvæmt því skal sá sem gerist sekur um kynferðislega áreitni, s.s. með því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns, innan klæða sem utan, sæta fangelsi allt að tveimur árum.
 
Vændi til framfærslu er gert refsilaust. Í nefndaráliti allsherjarnefndar segir að vændi sé ein birtingarmynd kynferðisofbeldis og þeir sem það stunda gera það að jafnaði af neyð. Vændi er félagslegt vandamál og efast verður um að það verði leyst með refsingum. Áfram verður þó refsivert að hafa atvinnu af vændi annarra.
 
Umboðsmaður barna fagnar þessum breytingum á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga enda fela þær í sér aukna réttarvernd fyrir börn. Með þessum breytingum eru gefin skýr skilaboð um að kynferðisbrot gegn börnum séu jafn alvarlegur glæpur og þeir sem ekki fyrnast samkvæmt eldri lögum, s.s. morð, mannrán o.fl., enda sýna rannsóknir að áhrif þessara brota á sálarlíf fórnarlamba og velferð eru mjög alvarleg.
 
Lögin hafa þegar öðlast gildi. Verða tenglar á almenn hegningarlög af síðum umboðsmanns barna endurnýjaðir þegar Alþingi hefur fært hinn nýja kynferðisbrotakafla inn í lögin á Alþingisvefnum.
 
 

 

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica