20. apríl 2009

Breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002

Alþingi hefur nýlega samþykkt breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002 og er nú kveðið berum orðum á um að óheimilt sé að beita börn líkamlegum eða andlegum refsingum. Lögunum er ætlað að bregðast við dómi Hæstaréttar frá 22. janúar 2009 í máli nr. 506/2008, þar sem því var slegið föstu að það gæti verið réttlætanlegt að flengja börn.

Alþingi hefur nýlega samþykkt breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002 og er nú kveðið berum orðum á um að óheimilt sé að beita börn líkamlegum eða andlegum refsingum. Lögunum er ætlað að bregðast við dómi Hæstaréttar frá 22. janúar 2009 í máli nr. 506/2008, þar sem gefið er í skyn að það geti verið réttlætanlegt að flengja börn. Umboðsmaður barna fagnar umræddum breytingum á barnaverndarlögum, enda eru nú tekin af öll tvímæli um það að börnum sé tryggð vernd gegn hvers kyns ofbeldi samkvæmt íslenskum lögum. Sjá má endanlega útgáfu breytingarlaganna hér.

Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi barna sinna og hafa ákveðið svigrúm um það hvaða uppeldisaðferðum þeir beita. Hins vegar felst í 19. gr. barnasáttmálans og ákvæðum barnaverndarlaga að foreldrum, og öðrum sem hafa börn í umsjá sinni, er aldrei heimilt að beita börn líkamlegu eða andlegu ofbeldi í uppeldisskyni. Talið er ljóst að slíkar refsingar þjóni ekki uppeldislegum tilgangi heldur hafi þvert á móti neikvæð áhrif á þroska og sjálfsmynd barna.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint líkamlegar refsingar sem hvers kyns beitingu á líkamlegu afli, óháð því hversu smávægileg hún er eða hvort slíkt hafi sjáanlegar afleiðingar. Á það meðal annars við um flengingar.

Samkvæmt framangreindum breytingum er ekki einungis óheimilt að beita börn líkamlegum refsingum, heldur eru hvers kyns andlegar og vanvirðandi refsingar einnig óheimilar. Með því er átt við refsingar sem fela í sér hótun um ofbeldi, niðurlægjandi orðalag eða annars konar vanvirðandi háttsemi. Slíkar refsingar geta haft jafn alvarlegar afleiðingar fyrir börn og beint líkamlegt ofbeldi.  Miklu máli skiptir að gera greinamun á uppeldislegum aðferðum foreldra sem miða að því að aga barnið og hafa uppbyggileg áhrif annars vegar og niðurlægjandi refsingum sem miða að því að valda barninu vanlíðan eða skömm hins vegar.


 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica