5. mars 2015

Bréf til þingmanna vegna áfengisfrumvarpsins

Umboðsmaður barna sendi í dag tölvupóst til allra þingmanna þar sem hann bendir á að hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga samkvæmt lögum að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi í almennum verslunum.

Umboðsmaður barna sendi í dag tölvupóst til allra þingmanna þar sem hann bendir á að hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga samkvæmt lögum að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi í almennum verslunum. Í tölvupóstinum er vísað í  umsögn umboðsmanns barna um frumvarpið.

Tölvupósturinn er svohljóðandi:

Kæri þingmaður

Nú er til meðferðar frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak, þar sem lagt er til að einkasala ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt. Áður en þú greiðir atkvæði um frumvarpið hvetur umboðsmaður barna þig til þess að hugsa um þær neikvæðu afleiðingar sem aukið aðgengi að áfengi mun hafa á velferð barna og unglinga.  

Við viljum minna þig á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem nú er hluti af íslenskum lögum, ber þér að setja hagsmuni barna í forgang þegar þú tekur ákvarðanir sem hafa áhrif á börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi í almennum verslunum. Má í því sambandi einnig benda á að íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna, sbr. meðal annars 33. gr. Barnasáttmálans. Hér fyrir neðan má lesa umsögn umboðsmanns barna um frumvarpið.

Við hvetjum þig einnig til þess að kynna þér rannsóknir og afstöðu fagfólks á sviði heilbrigðis- og félagsmála til frumvarpsins, sjá til dæmis hér á heimasíðu embættis landlæknis.

Kær kveðja,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


 

Umsögn umboðsmanns barna

Allsherjar- og menntamálanefnd

 

Reykjavík, 7. nóvember 2014
UB: 1411/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis), 17. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 23. október sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Í frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt. Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af þessari tillögu og vonar að hún verði ekki samþykkt.

Umboðsmaður barna óttast að ef sala áfengis verði leyfð í matvöruverslunum muni það auðvelda verulega möguleika barna og ungmenna til þess að nálgast áfengi. Auk þess er hætta á að aukinn sýnileiki áfengis muni stuðla að jákvæðum viðhorfum til áfengis og hvetja til aukinnar neyslu meðal unglinga. Slíkt getur ekki talist í samræmi við hagsmuni barna og ungmenna, enda hefur áfengi skaðleg áhrif á líkamlegan og andlegan þroska þeirra. Þá hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að því yngra sem fólk er þegar það byrjar að neyta áfengis því líklegra er að það þrói með sér áfengisvanda síðar á ævinni. Áfengi er algengasti vímugjafinn hér á landi en á undanförnum árum hefur dregið verulega úr áfengisneyslu meðal unglinga, meðal annars vegna öflugs forvarnastarfs, takmarkaðs aðgengis að áfengi og þeirri aðhaldsstefnu sem ríkir hér á landi. Fram kemur í Stefnu áfengis- og vímuvarna til ársins 2020, sem lögð var fram af Velferðarráðuneytinu í desember 2013, að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis sé að takmarka aðgengi að því. Það er meðal annars gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis. Þá segir að mikilvægt sé við alla ákvarðanatöku stjórnvalda er varðar áfengi að lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi ásamt bestu þekkingu á virkum og árangursríkum aðgerðum. Ofangreint frumvarp gengur þvert á umrædda stefnu og ef það verður að lögum er hætta á að sá góði árangur sem náðst hefur á undanförnum árum verði að engu og neysla áfengis meðal barna og ungmenna muni aukast.

Í athugasemdum með frumvarpinu er meðal annars vísað til þess að einkaaðilum sé treyst til þess að selja tóbak og því eigi einnig að treysta þeim fyrir sölu áfengis. Umboðsmaður barna hafnar því að það séu rök fyrir því að selja eina skaðlega vöru í matvöruverslun að önnur skaðleg vara sé þar nú þegar til sölu. Þá má benda á að tóbak má ekki vera sýnilegt í verslunum, sbr. 7. gr. laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002, en í ofangreindu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir sambærilegri reglu um áfengi.  Þar að auki hefur umboðsmaður fengið ábendingar um að börn og ungmenni sem vinna í matvöruverslunum finni fyrir þrýstingi til þess að selja jafnöldrum sínum tóbak. Ætla má að þrýstingurinn myndi vera jafnvel enn meiri ef sala áfengis yrði leyfð í matvöruverslunum og því enn erfiðara að framfylgja reglum um áfengiskaupaaldur.

Sala áfengis í matvöruverslunum myndi ekki einungis auka aðgengi barna og ungmenna að áfengi heldur einnig leiða til aukinnar áfengisneyslu í samfélaginu. Eins og fram kemur á heimasíðu Embættis landlæknis hafa rannsóknir sýnt að afnám einkasölu á áfengi leiði til aukinnar heildarneyslu. Öll börn og ungmenni eiga rétt á að alast upp í umhverfi þar sem þau eru vernduð gegn neikvæðum afleiðingum áfengis. Auðsýnt er að aukin áfengisneysla í samfélaginu getur haft margvísleg neikvæð áhrif á líf barna. Sem dæmi má nefna að neysla áfengis eykur líkurnar á vanrækslu barna, ofbeldi, umferðarslysum og öðrum slysum. Þá hefur áfengi neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og eykur líkurnar á ýmsum sjúkdómum. Er því ljóst að aukið aðgengi að áfengi muni hafa verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér,  þar á meðal aukið álag á barnaverndarkerfið og heilbrigðiskerfið, með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir ríkið.

Sérstaklega má benda á að áfengisneysla foreldra og annarra nákominna fjölskyldumeðlima hefur verulega neikvæð áhrif á velferð, líðan og þroska margra barna á Íslandi, en almennt er talið að eitt af hverjum fjórum börnum hér á landi séu aðstandendur alkóhólista. Umboðsmaður barna var nýlega með sérfræðihóp barna á aldrinum 14 til 18 ára sem eiga það sameiginlegt að eiga foreldri sem glímir við áfengis- og vímuefnavanda og var í apríl á þessu ári gefin út skýrsla um þá vinnu. Miðað við þá umræðu sem átti sér stað innan hópsins líður mörgum börnum sem hafa búið við alkóhólisma illa innan um áfengi. Þessi börn geta forðast búðir ÁTVR. Hins vegar væri erfitt  fyrir þau að sniðganga almennar matvörubúðir. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að það myndi auka töluvert á vanlíðan og kvíða barna í þessari stöðu ef smásala áfengis yrði gerð frjáls. Önnur umræða sem átti sér stað í sérfræðihópnum var mikilvægi þess að alkóhólistar sem hafa lokið meðferð fái þann stuðning sem þeir þurfa og aðstoð til þess að halda sér edrú. Ætla má að áfengi í matvöruverslunum myndi fela í sér auknar freistingar fyrir óvirka alkóhólista og aðra sem þurfa að forðast áfengi heilsu sinnar vegna.

Íslenska ríkið er skuldbundið að þjóðarétti til þess að virða réttindi barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í febrúar á síðasta ári var Barnasáttmálinn auk þess lögfestur einróma á Alþingi, sbr. lög nr. 19/2013. Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans á það sem er börnum fyrir bestu að hafa forgang við allar ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi með öðrum neysluvörum. Má í því sambandi einnig benda á að íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna, sbr. meðal annars 33. gr. Barnasáttmálans.

Umboðsmaður barna skorar á þingmenn til þess að virða réttindi barna, setja hagsmuni þeirra í forgang og hafna því að lögfesta ofangreint frumvarp.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica