23. desember 2016

Bréf til ráðuneyta varðandi hagsmuni og sjónarmið barna

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til allra ráðuneytana, starfsmenn þeirra og undirstofnana. Tilgangur bréfsins er að minna á inntak tveggja grundvallarreglna sáttmálans, sem finna má í 3. og . 12. gr. hans.

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til allra ráðuneytana, starfsmenn þeirra og undirstofnana. Tilgangur bréfsins er að minna á inntak tveggja grundvallarreglna sáttmálans, sem finna má í 3. og . 12. gr. hans.

Bréfið er svohljóðandi:

 

 

Reykjavík, 21. desember
UB: 1612/4.4.0

Efni: Hagsmunir og sjónarmið barna

 

Íslenska ríkið hefur verið skuldbundið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálanum eins og hann er oftast kallaður, síðan árið 1992. Árið 2013 var sáttmálinn auk þess lögfestur í heild sinni hér á landi, sbr. lög nr. 19/2013. Í sáttmálanum er að finna fjölmörg réttindi sem skylt er að tryggja börnum, án mismununar af nokkru tagi.

Í 3. og 12. gr. Barnasáttmálans er að finna tvær grundvallareglur hans. Þær fela ekki einungis í sér efnisreglur sem veita börnum sjálfstæð réttindi, heldur teljast þær einnig meginreglur sem hafa áhrif á túlkun annarra réttinda samkvæmt sáttmálanum. Þar að auki fela þessi ákvæði í sér málsmeðferðarreglur, sem opinberum aðilum er skylt að fylgja áður en þeir taka ákvarðanir eða gera aðrar ráðstafanir sem varða börn. Því miður er það afar misjafnt í framkvæmd hvort og þá að hvaða leyti hugað er að þessum reglum. Með þessu bréfi vill umboðsmaður barna því minna á inntak þessara reglna og þær skyldur sem þær fela í sér. 

Það sem er barni fyrir bestu

Í 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmálans kemur fram að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Þessi regla er einnig sérstaklega áréttuð í 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, en þar segir að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða málefni þess.

Það hvað er börnum fyrir bestu er vissulega matskennt og þarf því að meta það sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem ber ábyrgð á túlkun Barnasáttmálans, hefur með almennri athugasemd sinni nr. 14 veitt nánari leiðbeiningar um inntak reglunnar og þær skyldur sem hún leggur á ríkið. Nefndin leggur meðal annars áherslu á að við alla ákvörðunartöku sem varðar börn skuli fara fram sérstök greining og mat á því hvaða áhrif umrædd ákvörðun mun hafa á hagsmuni og réttindi barna (e. Child impact assessment). Þannig er betur hægt að tryggja að sú ákvörðun sé tekin sem er í bestu samræmi við hagsmuni barna.

Í framkvæmd hér á landi virðast ákvarðanir sem hafa áhrif á líf barna oftar en ekki teknar án þess að raunverulega sé metið hvort þær séu í samræmi við hagsmuni barna. Á það ekki síst við þegar verið er að taka ákvarðanir sem við fyrstu sýn virðast ekki varða börn sérstaklega, en hafa engu að síður umfangsmikil áhrif á hagsmuni og velferð barna. Á þetta til dæmis við um skipulagsmál, ráðstöfun opinbers fés, málefni innflytjenda og hælisleitenda, umhverfismál, öryggismál o.s.frv. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að opinberir aðilar fylgi lögum, framkvæmi mat á hagsmunum barna og taki ákvarðanir sem eru í samræmi við bestu hagsmuni og réttindi barna. 

Réttur barna til að hafa áhrif

Barnaréttarnefndin hefur ítrekað bent á að ekki sé hægt að meta hvað sé börnum fyrir bestu án þess að hlusta á skoðanir og reynslu barnanna sjálfra. Réttur barna til þess að hafa áhrif er tryggður í 1. mgr. 12. gr. Barnasáttmálans, en þar kemur fram að tryggja skuli barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar, og tekið skuli tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Í 2. mgr. er þessi réttur sérstaklega áréttaður þegar kemur að málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi. Þessi réttur barna er einnig tryggður í 3. mgr. 1. gr. barnalaga. Nánar er fjallað um inntak 12. gr. Barnasáttmálans í almennri athugasemd Barnaréttarnefndarinnar nr. 12.

Af fyrrnefndri reglu er ljóst að það er ávallt skylt að gefa börnum tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri áður en teknar eru ákvarðanir sem varða þau með einum eða öðrum hætti.  Þá ber að taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur og þroska. Barnaréttarnefndin hefur lagt áherslu á að mat fullorðinna á því hvað sé barni fyrir bestu eigi ekki að duga til þess að takmarka þennan rétt. Er því ekki rétt að ætla að hlífa börnum með því  veita þeim ekki tækifæri til þess að tjá sig. Þvert á móti er skylt að upplýsa börn sérstaklega um þennan rétt og tryggja barnvænlegar aðstæður og aðferðir, þannig að börn  geti tjáð sig á eigin forsendum. 

Þegar verið er að taka ákvarðanir sem varða hóp barna eða börn almennt hjá stjórnvöldum á vegum ríkisins virðist sjaldnast leitað eftir sjónarmiðum frá börnum. Á það við jafnvel þegar um er að ræða ákvarðanir sem eru til þess fallnar að hafa mikil áhrif á daglegt líf barna.  Þó má benda á nýstofnað ungmennaráð Menntamálastofnunar, sem er ætlað að vera stofnuninni innan handar með ráðgjöf um málefni og verkefni stofnunarinnar sem varða börn. Þetta frumkvæði er til fyrirmyndar að mati umboðsmanns barna og vonar hann að ráðuneytin og aðrar stofnanir taki þetta til fyrirmyndar. Það er brýnt að opinberir aðilar virði réttindi barna og hafi samráð við þau áður en teknar eru ákvarðanir sem varða hagsmuni þeirra.

Virðum réttindi barna

Mikilvægur þáttur í að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að tryggja að hann sé með markvissum og kerfisbundnum hætti hafður að leiðarljósi við alla stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku sem varða börn. Þekking á inntaki sáttmálans er grundvallarforsenda þess að réttindi barna séu virt í framkvæmd. Umboðsmaður barna hvetur stjórnvöld til þess að fræða starfsfólk um inntak sáttmálans og þá ekki síst fyrrnefndar grundvallarreglur um það sem er barninu fyrir bestu og rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif.

Upplýsingar um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ýmislegt kynningarefni má nálgast á vef umboðsmanns barna, www.barn.is. Ef frekari upplýsinga eða fræðslu er óskað er velkomið að hafa samband með því að senda tölvupóst á ub@barn.is eða hringja í síma 552-8999.

 

 

Kær kveðja,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica